Annar sigurinn á sama sólarhringnum

María Eiríksdóttir í baráttunni í Egilshöll í morgun en hún …
María Eiríksdóttir í baráttunni í Egilshöll í morgun en hún skoraði fjórða mark Akureyringa í leiknum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ak­ur­eyr­ing­ar unnu nokkuð þægilegan sig­ur á Reyk­vík­ing­um í morgun, 6:3, þegar liðin mætt­ust í Hertz-deild kvenna í ís­hokkí í Eg­ils­höll­inni. Þetta var annar sigur Akureyringa gegn Reykvíkingum á innan við sólarhring því liðin mættust í gærkvöldi í Egilshöllinni þar sem Akureyri vann 7:2-sigur.

Katrín Björnsdóttir og Berglind Leifsdóttir skoruðu sitt hvort markið fyrir Akureyri í fyrsta leikhluta en Védís Valdimarsdóttir minnkaði muninn fyrir Reykjavík í öðrum leikhluta. Sarah Smiley og María Eiríksdóttir komu Akureyri þremur mörkum yfir, 4:1, áður en Védís Valdimarsdóttir minnkaði aftur muninn í tvö mörk undir lok annars leikhluta.

Sarah Smiley og Berglind Leifsdóttir bættu við tveimur mörkum til viðbótar í þriðja leikhluta fyrir Akureyri áður en Sigrún Árnadóttir minnkaði muninn undir lok þriðja leikhluta og þar við sat. Akureyri er með sex stig eftir fyrstu þrjá leiki tímabilsins en Reykjavík er með tvö stig.

mbl.is