Fjölmargir fjörkálfar í Fylkisselinu

Sannkölluð karateveisla fór fram í Fylkisselinu í gær, þar sem yfir 120 karatekrakkar úr 11 félögum tóku í dag þátt í Fjörkálfamóti í kumite. Fjörkálfamótin eru æfingamót fyrir 11 ára og yngri og eru samstarfsverkefni Karatedeildar Fylkis og Karatefélagsins Þórshamars. Mótið var haldið í fimmta sinn og hefur aldrei verið fjölmennara.

Á mótunum gefst ungum og upprennandi karatekrökkum tækifæri til að æfa sig í keppni í kumite, sem er bardagahluti karate, og fá tilsögn í leiðinni.

„Við fórum af stað með þessi mót til að gefa yngri iðkendum tækifæri til að öðlast reynslu í skemmtilegu og öruggu umhverfi. Það hefur gefist vel og margir krakkar eru að koma á mótið í fjórða eða fimmta sinn,“ segir María Helga Guðmundsdóttir, mótsstjóri og varaformaður Karatefélagsins Þórshamars.

Mótin hafa verið mikilvæg lyftistöng fyrir karatesamfélagið og skilað reyndari og öruggari keppendum inn á unglingamót á vetum Karatesambandsins. „Mér hefur fundist standardinn hækka ár frá ári, krakkarnir koma öruggari inn á völlinn og það sýnir hversu gott starf er unnið í karatefélögunum við að undirbúa þau undir mótið,“ segir Pétur Freyr Ragnarsson, yfirdómari á mótinu og formaður Fylkis.

Í dagslok var að sjálfsögðu haldin pítsuveisla og krakkarnir fóru kátir og saddir heim að móti loknu. Meðfylgjandi myndir voru teknar á mótinu.

mbl.is