Ásdís var sentimetra frá Íslandsmetinu

Ásdís Hjálmsdóttir í kúluvarpi á Reykjavíkurleikunum í byrjun þessa mánaðar.
Ásdís Hjálmsdóttir í kúluvarpi á Reykjavíkurleikunum í byrjun þessa mánaðar. mbl.is/Sigurður Ragnarsson

Ásdís Hjálmsdóttir Annerud var hársbreidd frá því að slá Íslandsmetið í kúluvarpi kvenna innanhúss í gær þegar hún keppti á sænsku Grand Prix móti í Sätrahöllinni í Stokkhólmi.

Ásdís varð í fimmta sæti í kúluvarpinu og kastaði 16,18 metra en Íslandsmet Ernu Sóleyjar Gunnarsdóttur er 16,19 metrar. Íslandsmet Ásdísar utanhúss er 16,53 metrar en aðalgrein Ásdísar er hinsvegar spjótkastið.

Fanny Roos, Evrópumeistari 23 ára og yngri, vann keppnina með yfirburðum, kastaði 18,19 metra, en Vésteinn Hafsteinsson þjálfar hana.

Ásdís segir í viðtali við Silju Úlfarsdóttur á klefinn.is að hún hafi lagt áherslu á andlegan undirbúning fyrir mótið. Það hafi gengið mjög vel og hún nýti mótin núna til að æfa hann áður en hún fer keppir í spjótkasti á Vetrarkastmótinu í næsta mánuði.

mbl.is