Íslandsmeistari óttast um föður sinn

Chantel Jones, fyrrverandi markvörður Þórs/KA, segir að fyrir samfélaginu líti …
Chantel Jones, fyrrverandi markvörður Þórs/KA, segir að fyrir samfélaginu líti hún út eins og hvít kona. Ljósmynd/Thorhallur Jonsson

„Faðir minn er svartur maður. Fyrir samfélaginu lít ég út eins og hvít kona, svo ég upplifi ekki það sem faðir minn þarf að ganga í gegnum.“

Þetta skrifar Íslandsmeistarinn Chantel Jones, sem var markvörður Þórs/KA er liðið vann úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu árið 2012.

Chantel Jones, markvörður Þórs/KA, er liðið varð Íslandsmeistari 2012.
Chantel Jones, markvörður Þórs/KA, er liðið varð Íslandsmeistari 2012. Skapti Hallgrímsson

Jones segist vera heppin að upplifa þau forréttindi sem annað hvítt fólk upplifir á hverjum degi, en með færslu sinni á Facebook deilir hún ljósmynd af sér með tár í augum.

„Svona lít ég út í hvert skipti sem ég tala við föður minn á Facetime. Ég græt af því ég veit ekki hvort þetta muni vera í síðasta sinn sem ég tala við hann. Ég segi honum að fara varlega þegar hann fer út og að klæðast ekki fötum sem láta hann líta „grunsamlega“ út,“ skrifar Jones.

„Nýlega keypti hann sér sportbíl og mín fyrsta hugsun var: plís ekki keyra of hratt svo þú verðir ekki stöðvaður. Ég óttast það á hverjum degi að faðir minn verði drepinn af engri ástæðu annarri en þeirri að hann er svartur.“

Tilefni færslu Jones er nýlegasta dæmi um ofbeldi lögreglu gegn svörtu fólki í Bandaríkjunum, þar sem Jones segir kynþátt alltaf hafa verið vandamál. „Ég mun ekki þegja.“

mbl.is