Ætlar að bæta Íslandsmetið áður en hún hættir

Ásdís Hjálmsdóttir
Ásdís Hjálmsdóttir mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Það væri rosalega leiðinlegt að enda ferilinn á meiðslum. Ég vil enda á mínum forsendum, þar sem ég er sátt og vil kveðja,“ sagði spjótkastarinn Ásdís Hjálmsdóttir Annerud sem ræddi við Valtý Björn Val­týs­son í þætt­in­um Mín skoðun á Sport FM. Ásdís, sem verður 35 ára á árinu, lýkur brátt tuttugu ára frjálsíþróttaferli. „Að vera þvinguð til að hætta af því að ég er meidd. Það væri rosalega leiðinlegt,“ bætti hún við.

Ásdís ætlaði að ljúka glæstum tuttugu ára frjálsíþróttaferli með því að komast á Ólympíuleikana í Tókýó í sumar og keppa síðan á Evrópumeistaramótinu í París. Nú eru bæði mótin úr sögunni; Ólympíuleikunum hefur verið frestað til næsta árs og EM aflýst endanlega.

Þótt ekkert verði af því ætlar hún að reyna að bæta sitt eigið Íslandsmet í greininni áður en yfir lýkur en hún á eftir að keppa á fjórum mótum í ágúst. „Vonandi dettur það inn þar,“ segir Ásdís en metið hennar er 63,43 metrar frá árinu 2017. Hún hefur verið nálægt því undanfarið, kastaði meðal annars 62,66 metra í Svíþjóð í síðasta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert