Endurkjörinn í stjórn evrópska blaksambandsins

Aleksandar Boricic sem var endurkjörinn forseti Blaksambands Evrópu og Guðmundur …
Aleksandar Boricic sem var endurkjörinn forseti Blaksambands Evrópu og Guðmundur Helgi Þorsteinsson. Ljósmynd/CEV

Guðmundur Helgi Þorsteinsson hefur verið endurkjörinn í stjórn Blaksambands Evrópu, CEV, en ársþing þess var haldið í Vínarborg í gær.

Guðmundur Helgi er fyrrverandi framkvæmdastjóri tækni- og þróunarmála hjá Alþjóða blaksambandinu og þar áður var hannn framkvæmdastjóri Blaksambands Íslands.

Guðmundur hefur verið í stjórn CEV frá árinu 2015 og var nú endurkjörinn til fjögurra ára. Þá situr Guðmundur einnig í stjórn Smáþjóðasamtaka Evrópu, SCA en þau samtök sjá um blakviðburði hjá fimmtán smáþjóðum innan Evrópu.

mbl.is