Stendur á þröskuldi Ólympíuleikanna

Guðlaug Edda Hannesdóttir.
Guðlaug Edda Hannesdóttir. mbl.is/Árni Sæberg

Þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir keppti á dögunum á sterku móti á Arzachena á Ítalíu. Hafnaði hún í 36. sæti. Guðlaug Edda synti frábærlega en lenti í skakkaföllum á hjólinu.

„Þetta gekk upp og niður myndi ég segja. Ég var mjög ánægð með sundið sem var frábært en ég var í fimmta sæti eftir sundið. Hjólabrautin var erfið og þar var mikil brekka. Hjólaðir voru þrír hringir og þessi brekka kom því þrisvar við sögu. Á fyrsta hring voru allir á fullri ferð upp brekkuna en á þeim tímapunkti eru allir að berjast fyrir því að halda í við þær fremstu og missa þær ekki frá sér. Ég var að skipta um gír þegar keðjan datt af hjólinu. Ég var kannski of áköf. Þá þurfti ég að fara til hliðar, setja keðjuna á og stilla gírana aftur. Þá dróst ég mjög aftur úr og eyðilagði nánast keppnina. Þetta var leiðinlegt því maður vill keppa um efstu sætin. Hlaupið hjá mér var síðan allt í lagi.

Á heildina litið var þetta leiðinlegt því dagurinn byrjaði svo vel. Auk þess fær maður fá tækifæri til að keppa á þessu ári vegna faraldursins. Þetta var mjög sterkt mót. Í raun eins og heimsbikarmót miðað við hverjar voru með. Ég er ánægð með líkamlegt ásigkomulag. Það sást til dæmis í sundinu en ég hef líka sloppið við meiðsli og þess háttar. Maður veit að hluti af því að keppa er að eitthvað getur farið úrskeiðis og maður verður bara að halda áfram að bæta sig. Margt jákvætt er hægt að taka út úr þessu og ég læri af hinu,“ sagði Guðlaug Edda þegar Morgunblaðið spjallaði við hana í gær. 

Gæti keppt næst í mars

Guðlaug Edda er í þeirri stöðu sem stendur að vera alveg á mörkunum að komast á leikana í Tókýó næsta sumar. Í þríþrautinni gildir sérstakur styrkleikalisti sem er kallaður ólympíulisti. Hann er frábrugðinn heimslistanum. Á heimlistanum gilda öll mót sem keppendur taka þátt í en einungis viss mót gefa stig á ólympíulistann. Gildir frammistaða tvö ár aftur í tímann og stöðugleiki þríþrautarfólksins skiptir því máli.

„Ég er einu sæti frá því að komast inn eins og er. Ég þyrfti að ná góðri frammistöðu á einu til tveimur mótum á næsta ári til að gulltryggja farseðilinn. Ég þarf að vera dugleg að fara í mót snemma árs því helst myndi ég auðvitað vilja tryggja mig inn sem fyrst.“

Viðtalið í heild sinni er að finna í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »