Stórbætti Íslandsmetið

Baldvin Þór Magnússon til vinstri ásamt þjálfaranum sínum Mark Rinker.
Baldvin Þór Magnússon til vinstri ásamt þjálfaranum sínum Mark Rinker. Ljósmynd/Eastern Michigan-háskólinn

Baldvin Þór Magnússon stórbætti Íslandsmetið í 5.000 metra hlaupi á Raleigh Relays-háskólamótinu í Norður-Karólínu í Bandaríkjunum í gær.

Baldvin kom í mark á tímanum 13:45,66 mínútum og bætti met Hlyns Andréssonar um tólf sekúndur.

Baldvin kom fjórði í mark í Norður-Karólínu en Íslandsmetið sem hann bætti hafði staðið í tvö ár.

Ekki er langt síðan Baldvin bætti Íslandsmetið í 3.000 metra hlaupi innanhúss þegar hann kom í mark á tímanum 7:53,72 mínútum á bandaríska háskólameistaramótinu.

Baldvin sagði í viðtali við Morgunblaðið fyrir skömmu að hann ætti Hlyni allt að þakka varðandi skólavistina í Bandaríkjunum og hann hefur nú á stuttum tíma tekið tvö Íslandsmet af Eyjamanninum.

mbl.is