Strandar á aðkomu ríkisins

Laugardalshöllin er ónothæf vegna leka sem þar kom upp í …
Laugardalshöllin er ónothæf vegna leka sem þar kom upp í nóvember á síðasta ári. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Það stefnir í óefni hjá landsliðum Íslands í handknattleik og körfuknattleik en eins og sakir standa eru þau án heimavallar þegar kemur að landsleikjum í undankeppnum stórmóta þar sem ekkert íþróttahús á Íslandi stenst þær kröfur sem alþjóðasamböndin setja.

Í gær greindi Morgunblaðið frá því að karla- og kvennalandslið Íslands í körfuknattleik gætu þurft að spila heimaleiki sína í næstu undankeppnum í Danmörku eða Færeyjum en leikirnir fara fram í nóvember á þessu ári.

Laugardalshöll, sem hefur verið heimavöllur landsliðanna hingað til en þó á undanþágu frá alþjóðasamböndunum, er ónothæf vegna leka sem þar kom upp í nóvember á síðasta ári og hefur KKÍ gengið illa að fá undanþágu til að spila annars staðar hér á landi í nóvember.

Í janúar 2020 skipaði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, starfshóp sem átti að gera tillögur um nýjan þjóðarleikvang fyrir innanhússíþróttir en hann skipuðu Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, Óskar Þór Ármannsson og Marta Skúladóttir frá mennta- og menningarmálaráðuneyti, Ómar Einarsson og Sif Gunnarsdóttir tilnefnd af Reykjavíkurborg, Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, og Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, en fram að skipan hópsins var lítið að frétta í málaflokknum.

Talað um það í áratug

„Ég er búinn að tala um það í áratug núna að við þurfum nýjan þjóðarleikvang,“ sagði Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ og starfshópsins, í samtali við Morgunblaðið.

„Staðan í dag er bara sú að við uppfyllum ekki lengur þær kröfur sem gerðar eru til leikvanga af alþjóðaíþróttasamböndunum. Bæði hvað viðkemur stærð valla, öryggissvæðum í kringum völlinn, aðbúnaði fyrir fjölmiðlamenn, stærð áhorfendastæða og ýmsu öðru.

Það hefur verið rætt hvort hægt sé að laga eða breyta Laugardalshöllinni en það er einfaldlega ekki hægt þar sem gólfflöturinn í henni er ekki nægilega stór. Það er því ekki hægt að líta á hana sem einhverja framtíðarlausn. Við höfum því gert kröfu um að það verði byggður nýr þjóðarleikvangur og þetta mál komst á gott skrið fyrir um ári þegar starfshópurinn var stofnaður,“ sagði Guðmundur.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert