Þrjú íslensk í úrvalsliði Evrópumótsins – Auður efnilegust

Kolbrún Þöll Þorradóttir, Ásta Kristinsdóttir og Helgi Laxdal Aðalgeirsson.
Kolbrún Þöll Þorradóttir, Ásta Kristinsdóttir og Helgi Laxdal Aðalgeirsson. Ljósmynd/Fimleikasambandið

Þrír Íslendingar eru í úrvalsliði Evrópumótsins í hópfimleikum sem fram fór í Portúgal um síðasta helgi og Ísland átti auk þess annan af tveimur efnilegustu keppendum mótsins. 

Ásta Kristinsdóttir, Helgi Laxdal Aðalgeirsson og Kolbrún Þöll Þorradóttir voru valin í úrvalsliðið en í því eru sex bestu karlar og sex bestu konur mótsins. Ísland varð sem kunnugt er Evrópumeistari í kvennaflokki og hlaut silfurverðlaun í karlaflokki.

Kolbrún er í úrvalsliðinu í fjórða sinn en hún var áður valin árin 2014, 2016 og 2018 en hún framkvæmdi eitt erfiðasta stökk mótsins á trampólíni. Helgi og Ásta eru í liðinu í fyrsta sinn, Helgi eftir að hafa fyrstur framkvæmt sannkallað ofurstökk í keppni og Ásta fyrir yfirburði í dansi.

Þá var hin sextán ára gamla Auður Helga Halldórsdóttir valin efnilegasti keppandinn í stúlknaflokki en Ísland hefur aldrei áður átt fulltrúa í því vali.

mbl.is