Nýtt flokkakerfi í keppnishjólreiðum tekur gildi á þessu tímabili

Keppnistímabilið í ár er ný hafið, en dagskráin er nokkuð …
Keppnistímabilið í ár er ný hafið, en dagskráin er nokkuð þétt pökkuð fram á haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Á hjólreiðaþingi Hjólreiðasambands Íslands, sem haldið var í febrúar á þessu ári, var samþykkt að gera breytingar á flokkakerfi sem notast er við í hjólreiðakeppnum hér á landi, en grunnhugmyndin er að flokkarnir byggist nú allir upp eftir getustigi frekar en að vera að hluta til aldursskiptir. Með þessu er tekið upp svokallað ABC-kerfi í stað þess að hafa „elite“-flokk, B-flokk og svo mastersflokka sem eru fyrir keppendur 40 ára eða eldri. Við þessa breytingu er meðal annars horft til þess að auðvelda nýjum einstaklingum að koma inn í keppni og keppa á jafningjagrundvelli og að fá fleiri keppendur upp í efsta flokk með tíð og tíma.

ABC-kerfið virkar þannig að keppendur geta færst upp og niður milli flokka eftir getustigi og verða meðal annars þeir sem ná ákveðnum stigafjölda í B-flokki sjálfkrafa færðir upp um flokk milli ára. Þannig á enginn einn að geta verið öflugastur í neðri flokkum til lengdar heldur verður hann færður upp. Áfram verður þó notast við fyrra kerfi í fjallahjólreiðum.

mbl.is

Ein af þeim gagnrýnisröddum sem hafa heyrst um eldra kerfið var að margir mastersflokkar ræstu saman og þegar leið á keppnina fóru keppendur ekki að hugsa um heildarúrslitin heldur aðeins um keppni innan eigin aldursflokks. Töldu gagnrýnisraddir þetta skemma fyrir í keppnum, auk þess sem einstaklingar gætu haft áhrif út fyrir eigin aldursflokk.

Áfram haldið utan um úrslit aldursflokka

Þrátt fyrir að mastersflokkarnir falli niður verða stig áfram tekin saman eftir aldursflokkum og í lok hvers tímabils verða aldursverðlaun veitt í 19-29 ára, 30-39 ára, 40-49 ára, 50-59 ára og 60+ flokkum. Þeir sem eru yfir 50 ára verða undanskildir því að þurfa að færa sig upp um flokka. Svanur Daníelsson, formaður mótanefndar HRÍ, segir í samtali við Hjólablaðið að breytingarnar hafi verið hugsaðar til að einfalda flokkakerfið og fækka verðlaunaafhendingum fyrir mótshaldara. Hann segir kerfið jafnframt auka öryggi í þeim flokkum þar sem mesti hraðinn er. „Það er verið að taka út mastersflokka og innleiða kerfi þar sem fólk þarf að vinna sig upp. Þú getur ekki lengur skráð þig í A-flokk heldur þarft að vinna þig þangað upp. Þetta er meðal annars gert fyrir öryggið, að óvanir fari ekki upp í mjög hraða flokka,“ segir hann.

Yngri keppendur fái aukin tækifæri

Svanur segir að til lengdar ætti þetta jafnframt að leiða til þess að það fjölgi í A-flokki og vonandi meðal afreksfólks. „Í dag kemur þú inn í C-flokk eða almenningsflokk og þarft svo að sýna fram á reynslu til að komast upp í B-flokk. Ef þú ert svo betri en allir í B-flokki geturðu ekki valið að vera þar sem konungur B-flokksins heldur færist upp í A-flokk.“

Á hjólreiðaþinginu varð mikil umræða um þessar breytingar og töldu nokkrir að þær myndu leiða til þess að þátttaka meðal þeirra sem eru eldri en 40 ára myndi dragast saman, en sá hópur hefur undanfarin ár verið sterkur innan íþróttarinnar og duglegur að mæta á mót. Svanur segist skilja þessar áhyggjur en tekur ekki undir þær. Þá segir hann að til lengdar skipti meira máli að yngri flokkar fái tækifæri til að hjóla með fleirum í sama styrkleikaflokki, t.d. þegar unga fólkið kemur inn í B-flokk.

Segir Svanur jafnframt að mótshaldarar muni áfram birta árangur í keppnum þannig að keppendur geti miðað sig við aðra á sama aldri. Þá eigi stigastöfnun yfir árið í aldursflokkunum að virka sem gulrót fyrir þennan hóp. Þetta sé svipað fyrirkomulag og í hlaupum og gangi vel upp þar.

Svanur segir jafnframt að þetta nýja kerfi geti ýtt undir liðshluta götuhjólreiðanna, sem hingað til hafi ekki verið jafn stór hluti af íþróttinni og víðast hvar erlendis. Nefnir hann sem dæmi að ef einhver sé að vinna allar keppnir í B-flokki en vilji ekki fara upp geti viðkomandi eytt sínu púðri í síðari keppnum tímabilsins til að vinna fyrir liðið sitt. „Þetta gæti því ýtt undir liðsheildina því í dag er þetta enn svo mikið einstaklingssport hér á landi.“

Þessi grein birt­ist fyrst í Hjóla­blaði Morg­un­blaðsins sem kom út á laug­ar­dag­inn. Þar má finna fjöl­marg­ar grein­ar, ferðasög­ur og um­fjall­an­ir um mál­efni sem tengj­ast hjól­reiðum. Hægt er að nálg­ast blaðið í heild hér að neðan.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »