„Steinleið yfir mig“

Úlfhildur hefur stöngina upp í Mexíkó. Hún hafnaði í 7. …
Úlfhildur hefur stöngina upp í Mexíkó. Hún hafnaði í 7. sæti en hefði viljað vera í efstu fimm og líklega tekist það hefði hún ekki lent í óhappi í síðustu lyftunni. Ljósmynd/@iwnet/@isaac_morillas

Lyftingastúlkurnar Úlfhildur Unnarsdóttir og Bergrós Björnsdóttir gerðu strandhögg í León í Mexíkó í vikunni á heimsmeistaramóti ungmenna í ólympískum lyftingum og gerðu þar allgóða för, höfnuðu í sjöunda og áttunda sæti í sínum flokki, 71 kg, af 15 keppendum en skemmst er að minnast þess er þær stúlkur kepptu á Norðurlandameistaramótinu í Stavern í Noregi í nóvember þar sem Úlfhildur varð Norðurlandameistari og Bergrós tók silfrið.

„Þetta er í annað sinn sem ég keppi á HM unglinga og síðasta árið mitt um leið þar sem ég verð 18 ára á næsta ári og fer þá upp í junior-flokk,“ segir Úlfhildur í samtali við mbl.is, stödd á mexíkósku hóteli með nokkuð vafasömu netsambandi og spjallið gegnum Messenger því nokkuð slitrótt en við gerum okkar besta eins og handboltalandsliðið söng hér um árið.

„Þetta er stærsta mótið sem ég hef farið á og ég er búin að vera mjög spennt,“ segir Úlfhildur en játar þó um leið að spennunni hafi einnig fylgt visst stress. „Ég náði 84 kílóum í snatch [snörun] sem er einu kílói fyrir neðan mitt besta og ég er mjög ánægð með það. Svo opna ég í 100 kílóum í clean and jerk [jafnhendingu] og færi mig þaðan í 103 kíló,“ segir Úlfhildur.

Betur en á horfðist

Síðari þyngdin fór upp og var dæmd gild en þá steig kviðdómur fram og tók fram fyrir hendur dómaranna. Taldi dómurinn Úlfhildi ekki hafa náð að læsa öðrum olnboganum alveg í efstu stöðu jafnhendingarinnar og dæmdi lyftuna ógilda. „Þannig að ég missti þá lyftu en ég er ekki sammála þessari niðurstöðu,“ segir Úlfhildur sem svall þá móður og hugðist velgja kviðdómnum rækilega undir uggum með 104 kílóum. Þá varð óhapp sem kostaði til allra heilla ekki meiðsli.

Eggert Ólafsson þjálfari, Úlfhildur og Bergrós og lengst til hægri …
Eggert Ólafsson þjálfari, Úlfhildur og Bergrós og lengst til hægri er mamma, Helga Hlín Hákonardóttir, móðir Úlfhildar, einnig þekkt kempa á vettvangi ólympískra lyftinga eins og mbl.is hefur fjallað um. Ljósmynd/Aðsend

„Stöngin lenti á hálsæðinni og lokaði henni þannig að það steinleið yfir mig,“ segir Úlfhildur sem við meðvitundarleysið missti stöngina þegar á gólfið og féll svo sjálf á eftir og lenti ofan á stönginni. „Ég lenti á hnjánum og náði að bera hendurnar fyrir mig, ég meiddi mig ekki neitt. Læknir og sjúkraliðarnir á mótinu komu strax hlaupandi og hjálpuðu mér,“ segir Úlfhildur sem þar með hafði tekið sína síðustu lyftu, reglurnar eru ósveigjanlegar og leyfa ekki endurtekningu þrátt fyrir óhöpp. Var hún ekki fúl?

„Jú, mjög og svo var ég alveg í ruglinu eftir þetta, ég fór gjörsamlega í „blackout“ og man ekkert eftir þessu. Þótt ég hefði mátt endurtaka lyftuna hefði ég líklega ekki gert það, mig svimaði mikið og var bara þreytt einhvern veginn og eiginlega bara í klessu,“ segir Úlfhildur sem þó er ferskleikinn uppmálaður í viðtalinu.

Þetta er ekki Eggert þjálfari en Úlfhildur játar að blaðamaður …
Þetta er ekki Eggert þjálfari en Úlfhildur játar að blaðamaður var ekki sá fyrsti sem spurði hvort svo væri. Ljósmynd/Aðsend

Selfyssingurinn til Wisconsin

„Ég er svo sem alveg sátt við sjöunda sæti en langaði reyndar að ná upp í topp fimm sem ég hefði líklega náð hefðu þessi 104 kíló farið upp,“ segir Úlfhildur æðrulaus og er ánægð með mótið í heildina. Fram undan hjá henni er Evrópumeistaramót í Albaníu í haust svo eins og venjulega er lífið full keyrsla hjá valkyrjunni ungu sem kveður og réttir stöllu sinni símann.

Þessi mynd frá NM í Stavern í Noregi í nóvember …
Þessi mynd frá NM í Stavern í Noregi í nóvember útskýrir óhappið fyrir lesendum sem ekki þekkja til ólympískra lyftinga. Úlfhildur varð fyrir því að stöngin lokaði hálsslagæð með þeim afleiðingum að hún missti meðvitund í miðri lyftu. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég var svo sem ekkert að stefna á að keppa á þessu móti og var lengi að ákveða hvort ég ætlaði að gera það,“ segir Bergrós sem að lokum ákvað að láta slag standa og skráði sig á elleftu stundu. „Ég ákvað að drífa mig til að fá reynslu og bara hafa gaman,“ heldur hún áfram en henni nægir ekki að standa reglulega á verðlaunapöllum í ólympískum lyftingum heldur æfir einnig crossfit af krafti og er komin með þátttökurétt í unglingaflokki Heimsleikanna annáluðu sem haldnir verða í Madison í Wisconsin í ágúst.

„Ég var þess vegna ekki með neina pressu á mér fyrir þetta mót og gerði mér engar sérstakar væntingar,“ segir Bergrós sem tók 8. sætið auk þess að ná persónulegum bætingum í báðum greinum ólympískra lyftinga, 81 kg í snörun og 100 kg í jafnhendingu.

Skora alltaf hátt í þeim greinum

„Mér fannst þetta mót eiginlega bara rosalega skemmtilegt, ekkert sérstakt sem kom á óvart og bara flott mót,“ segir Bergrós sem hefur nú undirbúning fyrir Heimsleikana af krafti. „Þetta verður mjög erfitt en gaman,“ segir Bergrós sem tók 3. sætið á úrtökumótinu og kveður það hafa verið langt umfram hennar væntingar. „Ég stefni bara eins hátt og ég get á leikunum, ég er svona aðeins meira crossfit-megin,“ segir Selfyssingurinn öflugi sem lætur sig ekki muna um að vera keppnismanneskja í fremstu röð í tveimur íþróttagreinum.

Allra þjóða keppendur í 71 kg flokki Úlfhildar og Bergrósar.
Allra þjóða keppendur í 71 kg flokki Úlfhildar og Bergrósar. Ljósmynd/Aðsend

„Auðvitað hjálpar það mjög mikið að sum wod-in [wod, workout of the day, kallast keppnisgreinarnar í crossfit] eru sömu æfingar og í ólympískum lyftingum enda skora ég alltaf mjög hátt í þeim greinum,“ segir Bergrós Björnsdóttir sem er að drífa sig í flug heim til Íslands svo við leggjum talið hér eftir ágæta för þeirra Úlfhildar á HM ungmenna í ólympískum lyftingum í Mexíkó.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert