Gamla ljósmyndin: Fyrst yfir 6 metrana

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Bryndís Hólm var fyrst íslenskra kvenna til að stökkva lengra en 6 metra í langstökki hvort heldur er utanhúss eða innanhúss. 

Bryndís stökk lengst 6,02 metra innanhúss og gerði það á Íslandsmótinu innanhúss 23. febrúar árið 1985 og 6,17 metra utanhúss og gerði það í Edinborg í Skotlandi hinn 31. júlí árið 1983. 

Á meðfylgjandi mynd náði Júlíus Sigurjónsson að smella af þegar Bryndís er að lenda í gryfjunni á Íslandsmótinu utanhúss um miðjan níunda áratuginn en Júlíus myndaði í áratugi fyrir Morgunblaðið og mbl.is. 

Bryndís var ung að árum þegar hún var farin að stökkva yfir 6 metrana því hún er fædd árið 1965. Stökk hennar árið 1983 er því enn stúlknamet 19 ára og yngri í langstökki. Í flokki fullorðinna stóð metið auk þess mjög lengi og var það ekki fyrr en tæpum tveimur áratugum síðar sem Sunna Gestsdóttir bætti metið og stökk 6,24 metra.

Einungis þrjár íslenskar konur hafa stokkið lengra í greininni en auk Sunnu eru það Hafdís Sigurðardóttir og Sveinbjörg Zophoníasdóttir. 

Bryndís keppti fyrir ÍR og dró úr æfingum og keppni árið 1986 og náði því ýmsum afrekum á stuttum ferli. Bryndís fór yfir 1,71 í hástökki og hljóp 100 metrana á 12,5 sekúndum.

Bryndís átti síðar eftir að birtast reglulega inni í stofu hjá landsmönnum ef þannig má að orði komast þegar hún las fréttir á sjónvarpsstöðvunum. 

mbl.is