Þrjár landsliðskonur höfða mál vegna misnotkunar

Peter Foley var þjálfari landsliðs Bandaríkjanna í snjóbrettum frá 1994 …
Peter Foley var þjálfari landsliðs Bandaríkjanna í snjóbrettum frá 1994 til 2022. AFP/Doug Pensinger

Þrjár fyrrverandi landsliðskonur Bandaríkjanna á snjóbretti hafa höfðað mál gegn fyrrverandi þjálfara sínum, Peter Foley, og saka hann um kynferðislega misnotkun.

Þær Rosey Fletcher, Erin O’Malley og Callan Chythlook-Sifsof hafa lagt fram kæru á hendur Foley auk bandaríska skíða- og snjóbrettasambandsins ásamt bandarísku ólympíunefndarinnar, þar sem samböndin eru sökuð um að sópa ásökununum undir teppi.

Foley var rekinn úr starfi sínu á síðasta ári í kjölfar ásakana Chythlook-Sifsof í hans garð, eftir að hafa verið landsliðsþjálfari hjá skíða- og snjóbrettasambandi Bandaríkjanna allt frá árinu 1994.

Fletcher tók þátt á þremur vetrarólympíuleikum og vann til að mynda til bronsverðlauna í Tórínó árið 2006.

O’Malley var í landsliðinu á tíunda áratug síðustu aldar og Chythlook-Sifsof tók þátt á Vetrarólympíuleikunum í Vancouver árið 2010.

Í málsókninni segir að ásakanir um misnotkun hafi verið tilkynntar mörgum sinnum til sambandanna tveggja, sem hafi hvorugt aðhafst nokkuð.

Foley er gefið að sök að hafa misnotað traust íþróttakvennanna með því að þvinga þær til kynferðislegra athafna með valdbeitingu, ráðskast með þær og beita andlegu ofbeldi, beita hótunum og beita hefndaraðgerðum.

mbl.is