Golf: Ólafur Már og Birgir Leifur leika til úrslita

Ólafur Már, til hægri, þakkar Magnúsi Lárussyni fyrir leikinn. Magnús …
Ólafur Már, til hægri, þakkar Magnúsi Lárussyni fyrir leikinn. Magnús náði ekki að vinna annað mót sitt í sömu vikunni þegar hann féll úr leik eftir tap gegn Ólafi. mbl.is/hj

Ólafur Már Sigurðsson úr GK lagði Magnús Lárusson úr GKj 2/1 í undanúrslitum á Íslandsmótinu í holukeppni sem lauk rétt í þessu. Í hinum undanúrslitaleiknum sigraði Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG heimamanninn Tryggva Pétursson úr GR 4/3.

Ólafur Már var sáttur í leikslok en hann komst fljótlega í þægilega forystu í einvíginu, átti þrjár holur á Magnús þegar þeir voru búnir að leika fjórar holur. Ólafur sagðist hafa leikið vel og þegar hann átti fjórar holur á Magnús þegar þeir áttu eftir að leika sjö holur var staða hans orðin þægileg.

„Ég vissi að Maggi þyrfti að sækja og fá nokkra fugla þegar þarna var komið og því lék ég öruggt golf frá því og það dugði til sigurs.“

Einvígi Tryggva og Birgis Leifs var einstefna allan tímann, en Tryggvi sýndi góð tilþrif og náði að halda lífi í einvíginu fram á 15. holuna.

Birigir Leifur átti þrjár holur á Tryggva eftir fimm holu leik, Tryggvi náði svo að minnka forskotið niður í eina holu eftir níu holur.

Birgir Leifur vann svo 10., 11., og 12. holuna og var kominn fjóra upp. Tryggvi vann 13. holuna þegar Birgir Leifur fjórpúttaði. Birgir Leifur fékk svo fugl á 14. holuna með því að setja niður 14 metra langt pútt og aftur kominn fjóra yfir þegar fjórar holur voru eftir.

Birgir Leifur innsiglaði svo sigurinn á 15. holunni þegar hún féll þrátt fyrir að upphafshögg Birgis Leifs hafði endað í skurðinum og hann þurfti að taka víti.

Lokaniðurstaðan var því 4/3 eins og áður sagði.

Tryggvi Pétursson til vinstri, komst aldrei yfir í einvígi sínu …
Tryggvi Pétursson til vinstri, komst aldrei yfir í einvígi sínu gegn Birgi Leifi Hafþórssyni. mbl.is/hj
mbl.is