Tiger Woods gekkst undir aðgerð

Tiger Woods.
Tiger Woods. AFP

Kylfingurinn Tiger Woods verður fjarri góðu gamni næsta hálfa árið eða svo, en hann hefur gengist undir aðgerð til þess að reyna að ráða bót meina sinna eftir þrálát bakmeiðsli síðustu misseri.

„Aðgerðin gekk vel og ég er bjartsýnn á að nú séu meiðsli mín á bak og burt. Ég hlakka til að geta tekist á við daglegt líf á ný þegar ég hef jafnað mig hvort sem er að leika við börnin mín eða spila golf,“ sagði Woods.

Þetta er þriðja aðgerðin sem Woods fer í á síðustu 19 mánuðum. Hann sneri aftur til keppni í desember síðastliðinn eftir að hafa verið frá í rúmt ár, og þurfti svo að draga sig úr keppni í fyrstu mótum þessa árs vegna meiðslanna.

Woods hefur unnið 14 risatitla á ferlinum en níu ár eru frá þeim síðasta sem var á Opna bandaríska meistaramótinu í júní 2008.

mbl.is