Lokahringurinn bestur hjá Ólafíu

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. AFP

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir atvinnukylfingur lauk í morgun sínum besta hring á Swinging Skirts LPGA-mótinu á Taívan þegar hún lék lokahringinn á tveimur höggum undir pari vallarins, 70 höggum.

Þar með rétti hún sinn hlut dálítið eftir basl fyrstu þrjá dagana þegar hún lék á 76, 77 og 77 höggum. Ólafía lauk keppni á 12 höggum yfir pari og endaði í 67.-72. sæti af 80 keppendum á mótinu.

Eun-Hee Ji frá Suður-Kóreu vann sannfærandi sigur, lék samtals á 17 höggum undir pari og varð sex höggum á undan Lydiu Ko frá Nýja-Sjálandi sem hafnaði í öðru sæti.

mbl.is