Ég er gangandi kraftaverk

Tiger Woods.
Tiger Woods. AFP

Bandaríski kylfingurinn Tiger Woods hefur verið að leika sitt besta golf í mörg ár og segir á opinberri heimasíðu sinni að hann sé einfaldlega gangandi kraftaverk. Hann undirbýr sig þessa dagana fyrir fyrsta risamót ársins í karlaflokki, Masters-mótið á Augusta, sem hefst 5. apríl.

Woods er einn sigursælasti kylfingur sögunnar og hefur unnið 14 risatitla á árinu en hefur farið í fjórar bakaðgerðir á þremur árum. Hann óttaðist um tíma að hann myndi ekki geta spilað golf á ný en hann fór í síðustu aðgerðina, staurliðsaðgerð á hrygg, í apríl árið 2017.

Tiger náði sínum besta árangri í mars í fimm ár á PGA-mótaröðinni er hann lenti í 2. sæti á Valspar-mótinu í Flórída. Hann var aðeins tveimur höggum frá sigri og hefur lent ofarlega í nokkrum mótum á tímabilinu.

„Þetta er smám saman að koma,” sagði Woods.

„Ég fékk annað tækifæri í lífinu [eftir aðgerðina]. Ég er gangandi kraftaverk,” sagði Woods sem hefur unnið Masters-mótið fjórum sinnum og segist mæta til leiks til þess að sigra.

„Ég hlakka mjög mikið til þess að spila á Masters. Þeta er besta golfmót í heimi. Völlurinn, fólkið, allt andrúmsloftið. Þetta er himnaríki kylfingsins,” sagði Woods.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert