Tiger Woods nærri því að komast í liðið

Tiger Woods hefur verið að spila vel undanfarnar vikur.
Tiger Woods hefur verið að spila vel undanfarnar vikur. AFP

Keppni Evrópu og Bandaríkjanna um Ryder-bikarinn í golfi fer fram eftir rúman mánuð. Kylfingarnir hafa ekki langan tíma til viðbótar til að vinna sig inn í liðin, eða um tvær vikur. Tólf kylfingar skipa hvort lið og í báðum tilfellum geta átta unnið sig inn í liðin með árangri sínum á stærstu mótaröðunum. Fyrirliðar liðanna velja svo fjóra leikmenn til viðbótar hvor um sig.

Tiger Woods hefur með spilamennsku sinni síðustu vikurnar tekist að blanda sér í baráttuna um að komast í bandaríska liðið. Á meðan Woods var að jafna sig eftir bakaðgerðir var hann settur í liðsstjórnina hjá liði Bandaríkjanna. Jim Furyk, fyrirliði Bandaríkjanna, hefur látið hafa eftir sér að Woods muni ekki gegna báðum hlutverkum. Ef hann kemst í liðið sem leikmaður verður annar fenginn í teymi Furyks. Sem stendur er Woods í 11. sæti á Ryder-listanum hjá Bandaríkjunum. Í ljósi frammistöðu hans á síðustu tveimur risamótum ársins, Opna breska og PGA meistaramótinu, verður að teljast afar líklegt að Woods verði einn fjögurra sem Furyk velur í liðið.

Önnur bandarísk goðsögn daðrar við að komast í liðið og það er hinn 48 ára gamli Phil Mickelson. Hann er í 10. sæti listans og vann nokkuð sterkt mót á fyrri hluta ársins. Líklegt er að Furyk vilji nýta krafta hans í ljósi þess að Mickelson hefur spilað vel í ár. Fari svo setur Mickelson met, en hann og Sir Nick Faldo hafa oftast keppt í Ryder-bikarnum, eða ellefu sinnum. Mickelson yrði hins vegar ekki sá elsti í sögu keppninnar, en Raymond Floyd setti met þegar hann keppti 51 árs fyrir Bandaríkin árið 1993.

Nánari umfjöllun um Ryder-bikarinn má lesa í íþróttablaði Morgunblaðsins