Er komið að sigurstund hjá Tiger?

Tiger Woods og Justin Rose í gírnum á hringnum í ...
Tiger Woods og Justin Rose í gírnum á hringnum í gær. AFP

Tiger Woods hefur þriggja högga forystu fyrir lokadaginn á Tour Championship, lokamóti FedEx úrslitakeppninnar á PGA-mótaröðinni í golfi. Tiger gæti landað sínum fyrsta sigri á mótaröðinni síðan 2013. 

Tiger hefur leikið afar vel á East Lake vellinum í Atlanta og er samtals á 12 undir pari. Hann lék þriðja hringinn í gærkvöldi á 65 höggum og hefur leikið hringina þrjá á 65, 68 og 65. 

Næstir koma Justin Rose og Rory McIlroy á samtals 9 undir pari og Tiger þarf því að halda vel á spöðunum á lokahringnum í dag með slíka kylfinga í baráttunni. 

Einungis þrjátíu kylfingar sem stóðu best að vígi í úrslitakeppninni fengu þátttökurétt á Tour Championship. Samkeppnin er gríðarlega hörð og til að mynda náðu Jordan Spieth og Sergio Garcia ekki að vera á meðal þessara þrjátíu. 

Rose og McIlroy eru væntanlega þeir einu sem geta skákað Tiger í kvöld en þeir Jon Rahm og Kyle Stanley koma næstir á 6 undir pari samtals. 

Justin Rose stendur nokkuð vel að vígi í samanlagðri stigakeppni úrslitakeppninnar en í kvöld skýrist hver verður þar efstur en í boði er verðlaunafé upp á 10 milljónir dollara. 

Rory McIlroy lék í gær á 66 höggum.
Rory McIlroy lék í gær á 66 höggum. AFP
mbl.is