Staða Ólafíu versnaði

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir mbl.is/Árni Sæberg

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, úr GR, lék á 77 höggum á öðrum degi lokaúrtökumótsins fyrir LPGA-mótaröðina í golfi. Hún stendur ekki vel að vígi eftir fyrstu tvo dagana en mikið vatn á þó eftir að renna til sjávar í mótinu. 

Ólafía var á 76 höggum í gær og er samtals á níu höggum yfir pari Pinehurst no. 6 vallarins í Norður Karólínuríki. 45 kylfingar komast áfram og tryggja sér keppnisrétt á mótaröðinni á næsta ári. Þar hefur Ólafía leikið síðustu tvö ár en gekk ekki nógu vel á þessu ári til að framlengja keppnsrétt sinn sem er eitt ár í senn, eins og henni tókst að gera í fyrra. 

Lokaúrtökumótið er hins vegar maraþon en ekki spretthlaup. Ólafía er nú fimm höggum frá því að komast í hóp 45 efstu en 144 holur eru leiknar í mótinu. Fjórir hringir á Pinehurst no. 6 vellinum á fjörum dögum. Þá kemur þriggja daga frí og þá verða aðrir fjórir hringir á fjórum dögum á öðrum velli á Pinehurst-svæðinu. 

Ólafía fékk tvo fugla á hringnum í dag og ellefu pör. Hún fékk hins vegar tvo skramba sem eru afar dýrir og þrjá skolla. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert