Setti met á Skaganum og mætt til Abu Dhabi

Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra Jónsdóttir. mbl.is/Hari

Kylfingurinn Valdís Þóra Jónsdóttir var kjörin íþróttamaður ársins á Akranesi og hlýtur þessa nafnbót þriðja árið í röð.

Valdís hefur þar með sett met þegar kemur að þessu kjöri á Skaganum. Hún hefur oftast allra orðið fyrir valinu en alls hefur Valdísi sjö sinnum hlotnast þessi heiður. Valdís var fyrst valin árið 2007 og vann fjögur ár í röð eða til 2010.

Samkvæmt frétt staðarmiðilsins Skagafréttir.is fór Valdís þar með upp fyrir sundkempurnar og ólympíufarana Ragnheiði Runólfsdóttur og Kolbrúnu Ýri Kristjánsdóttur. Urðu þær fyrir valinu sex sinnum hvor. Í báðum tilfellum unnu þær sex sinnum á sjö ára tímabili. Kylfingurinn Birgir Leifur Hafþórsson er næstur á listanum en hann hefur þrívegis verið valinn. 

Byrjar tímabilið á fimmtudag

Nýtt keppnistímabil á Evrópumótaröðinni í golfi hefst með fyrsta móti ársins sem fram fer í Abu Dhabi og byrjar á fimmtudag.

Um er að ræða Fatima Bint Mubarak-mótið, en aðeins 56 kylfingar fá þátttökurétt. Valdís er ein af þeim eftir að hafa verið á meðal 50 efstu á stigalista mótaraðarinnar á síðasta tímabili.

Eftir mótið í Abu Dhabi tekur við keppnistörn í Ástralíu þar sem að þrjú mót fara fram í lok febrúar og byrjun mars. Keppnisdagatalið liggur fyrir í heild sinni og má sjá HÉR.

mbl.is