Valdís þriðja fyrir lokahringinn

Valdís Þóra Jónsdóttir á mótinu í Nýja-Suður-Wales.
Valdís Þóra Jónsdóttir á mótinu í Nýja-Suður-Wales. Ljósmynd/LET

Valdís Þóra Jónsdóttir er áfram í hörkubaráttu um efstu sætin á NSW Open golfmótinu  í Nýja-Suður-Wales í Ástralíu eftir að hafa leikið þriðja hring mótsins á einu höggi yfir pari, 72 höggum, í nótt. Mótið er hluti af Evrópumótaröðinni.

Valdís, sem lék fyrsta hringinn á 63 höggum og annan hringinn á 72 höggum, fékk skolla á fjórum holum og fugl á þremur.

Hún er samtals á 205 höggum, 8 höggum undir pari, og deilir þriðja sætinu með Christine Wolf frá Austurríki og Karolin Lampert frá Þýskalandi.

Meghan MacLaren frá Englandi og Lynn Carlsson frá Svíþjóð eru komnar í efsta sætið en þær léku báðar á 67 höggum í nóttog hafa þar með leikið samtals á 203 höggum, 10 höggum undir pari vallarins.

Lokahringurinn er leikinn næstu nótt og Valdís hefur keppni rétt fyrir klukkan 11 í kvöld að íslenskum tíma en þá er klukkan 10 á sunnudagsmorgni í Nýja-Suður-Wales. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert