Kínverji með forystuna á PGA-meistaramótinu

Haotong Li á hringnum í gær.
Haotong Li á hringnum í gær. AFP

Haotong Li frá Kína er efstur á PGA-meistaramótinu í golfi eftir að hafa leikið glimrandi vel á fyrstu 36 holunum en öðrum keppnisdegi lauk í Kaliforníu í nótt. 

Staðan kemur á óvart en Li er þó ekki alveg óþekktur og hafnaði í 3. sæti á The Open Championship árið 2017. Hann er á átta höggum undir pari vallarins og lék í gær á 65 höggum. 

Margir snjallir kylfingar koma næstir á sex höggum undir pari. Í þeim hópi eru Jason Day, Tommy Fleetwood, ólympíumeistarinn Justin Rose og Brooks Koepka sem sigrað hefur á PGA-meistaramótinu síðustu tvö ár. Bandaríkjamaðurinn Daniel Berger er einnig á sex undir pari og Frakkinn Mike Lorenzo-Vera sem komið hefur á óvart. 

Tiger Woods átti fremur erfiðan dag í gær. Hann lék á tveimur undir pari fyrsta daginn og var þá í fínum málum en er á parinu samtals eftir að hafa leikið á 72 höggum í gær. 

Staðan hjá öðrum völdum kylfingum: 

Dustin Johnson - 4

Hideki Matsuyama - 3

Patrick Reed - 2

Bryson DeChambeau -2

Jon Rahm - 1

Webb Simpson -1

Rory McIlroy -1

Phil Mickelson +1

Jordan Spieth +1

Justin Thomas +1

Getur Brooks Koepka sigrað þriðja árið í röð?
Getur Brooks Koepka sigrað þriðja árið í röð? AFP
mbl.is