Evrópumót stúlknalandsliða á Íslandi

Evrópumót stúlknalandsliða árið 2022 fer fram á Urriðavelli.
Evrópumót stúlknalandsliða árið 2022 fer fram á Urriðavelli. Ljósmynd/Golf.is

Evrópumót stúlknalandsliða í golfi verður haldið á Urriðavelli hjá Golfklúbbnum Oddi í Garðabæ í byrjun júlí 2022.

Á mótinu keppa fremstu áhugakylfingar Evrópu, átján ára og yngri, en það er evrópska golfsambandið, EGA, sem er framkvæmdaraðili mótsins.

Evrópska golfsambandið, Golfsamband Íslands og Golfklúbburinn Oddur hafa nú þegar hafist handa við undirbúning mótsins,“ segir í fréttatilkynningu Golfsambands Íslands.

Þetta er í annað sinn sem Evrópumót fer fram á Íslandi en Evrópumót kvennalandsliða fór fram á Urriðavelli árið 2016. Það var jafnframt stærsta alþjóðlega mótið sem farið hefur fram á Íslandi.

„Við erum afar stolt af því að Ísland hafi verið valið sem áfangastaður fyrir Evrópumót í golfi. Evrópska golfsambandið var mjög ánægt með framkvæmdina árið 2016 og það sama má segja um keppendur í því móti,“ sagði Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands og forseti evrópska golfsambandsins.

„Evrópumót landsliða eru stærstu mót sem EGA stendur fyrir ár hvert og þessi mót eru ávallt haldin á bestu golfvöllum Evrópu. Í þessu vali felst því mikil viðurkenning fyrir Urriðavöll og félagsmenn í Golfklúbbnum Oddi.

Með GSÍ-hattinn á mér hlakka ég mikið til áskorunarinnar sem felst í því að halda svona merkilegt golfmót og með EGA-hattinn á mér get ég ekki annað sagt en að ég hlakka til að veita stúlkunum færi á að heimsækja Ísland af þessu tilefni,“ bætti Haukur Örn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka