„Þau munu finna fyrir þessu á Íslandi“

Nick Faldo var fyrirliði Evrópu í keppninni um Ryder-bikarinn árið …
Nick Faldo var fyrirliði Evrópu í keppninni um Ryder-bikarinn árið 2008 og tekur hér í spaðann Phil Mickelson í keppninni sem þá var haldin í Kentucky. Reuters

Náttúruöflin á Íslandi virðast vera Englendingnum Sir Nick Faldo ofarlega í huga ef marka má ummæli hans í beinni sjónvarpsútsendingu bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar NBC í kvöld. 

Faldo var ásamt fleirum að lýsa því sem fyrir augu bar á World Golf Championships Match Play í kvöld en segja má að mótið sé eins konar heimsmeistaramót í holukeppni í golfi og er nú haldið í Texas. 

Tyrrell Hatton reynir að brosa meira á golfvellinum en það …
Tyrrell Hatton reynir að brosa meira á golfvellinum en það gengur misjafnlega. AFP

Englendingarnir Mike Wallace og Tyrrell Hatton áttust við. Hatton sló annað högg sitt á 16. holu og höggið misheppnaðist. Hatton er í 8. sæti heimslistans en hefur átt það til að missa stjórn á skapinu á golfvellinum þótt honum hafi tekist að bæta þann þátt á undanförnum misserum. Hatton var ósáttur við höggið og barði kylfingunni af miklu afli í jörðina og henti í framhaldinu kylfunni frá sér. 

Nick Faldo á blaðamannafundi á Íslandi árið 2005.
Nick Faldo á blaðamannafundi á Íslandi árið 2005. mbl.is/Sverrir

Lýsendum var skemmt og sagði Sir Nick Faldo: „Þau fundu fyrir þessu á Íslandi. Enn einn jarðskjálftinn."

Faldo þekkir sig ágætlega á Íslandi því snemma á þessari öld var til skoðunar hjá honum að hanna golfvöll í svarta sandinum nærri Þorlákshöfn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert