Nýliði sigraði á fyrsta risamóti ársins

Patty Tavatanakit fagnar fugli á 8. holu.
Patty Tavatanakit fagnar fugli á 8. holu. AFP

Patty Tavatanakit frá Taílandi sigraði á fyrsta risamóti ársins í golfi þegar hún lék samtals á 18 höggum undir pari á ANA Inspiration-mótinu í Kaliforníu.

Tavatanakit er aðeins 21 árs og er nýliði í LPGA-mótaröðinni en áður átti hún velgengni að fagna í háskólagolfinu NCAA þar sem hún lék fyrir UCLA.

Nýliði í mótaröðinni hefur ekki unnið ANA-mótið síðan 1984 þegar Juli Inkster afrekaði það.

Lydia Ko frá Nýja-Sjálandi lauk keppni á 16 undir pari samtals eftir magnaðan lokahring í gærkvöldi en þá lék hún á 62 höggum og jafnaði vallarmetið. Skorið er auk þess eitt það besta sem náðst hefur á risamótunum í golfi en Ko sigraði á mótinu árið 2016.

mbl.is