Auðvitað er ég hér vegna peninganna

Graeme McDowell á blaðamannafundi.
Graeme McDowell á blaðamannafundi. AFP/Adrian Dennis

Norður-írski kylfingurinn Graeme McDowell segir það gefa auga leið að hann og aðrir kylfingar í fremstu röð hafi fært sig yfir til LIV-mótaraðarinnar umdeildu vegna þeirra háu fjárhæða sem standi þátttakendum til boða.

„Þetta snýst um peningana og ég held að flestir kylfingarnir myndu glaðir segja það við ykkur.

Þeir eru komnir hingað vegna þessa fjárhagslega tækifæris, það er enginn vafi á því,“ sagði McDowell á blaðamannafundi.

Hann sagði sig úr PGA-mótaröðinni í golfi líkt og fjöldi annarra þekktra kylfinga til þess að skipta yfir til LIV-mótaraðarinnar, sem sádi-arabísk stjórnvöld fjármagna.

Sá sem sigrar á LIV-mótaröðinni vinnur 200 milljónir punda í verðlaunafé, auk þess sem fjöldi kylfinga eru sagðir hafa þegið háar greiðslur fyrir það eitt að taka þátt í mótum á vegum hennar.

„Það er enginn að fara að mótmæla því í milljón ár að þetta snúist um peninga en það býr meira að baki því sem við erum að reyna að skapa: Nýja vöru fyrir aðdáendur.

54 holu „shotgun“ liðafyrirkomulagið er skemmtilegt, það er öðruvísi. En öllum er sama um það sem stendur, fólki er bara umhugað um neikvæðnina.

Er ég að spila vegna peninganna? Já auðvitað,“ bætti McDowell við á blaðamannafundinum.

mbl.is