Guðrún komin áfram á lokastigið

Guðrún Brá Björgvinsdóttir lék vel í dag.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir lék vel í dag. Ljósmynd/Tristan Jones/LET

Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr GK tryggði sér í dag keppnisrétt á lokastigi úrtökumótanna fyrir Evrópumótaröð kvenna í golfi með góðri frammistöðu á lokahring á fyrsta stiginu á La Manga á Spáni.

Guðrún lék hringinn í dag á 70 höggum, þremur undir pari vallarins, og er fyrir vikið komin upp í 25.-37. sætið á mótinu eins og staðan er núna.

Margir kylfingar eiga eftir að ljúka keppni í dag en þar sem í það minnsta 62 efstu af 156 keppendum komast áfram er ljóst að Guðrún er örugg með að vera í þeim hópi en hún lék hringina fjóra á mótinu á samtals fjórum höggum yfir pari. Eins og staðan er núna komast þær áfram sem eru á níu höggum yfir pari.

Ragnhildi Kristinsdóttur úr GR hefur gengið heldur verr í dag en hún var tveimur höggum fyrir ofan Guðrúnu eftir þrjá hringi. Hún hefur leikið á átta höggum yfir pari í dag og er sem stendur í 76.-82. sæti á samtals 13 höggum yfir pari þegar hún á þrjár holur eftir. Hún þarf því að leika afar vel á síðustu holunum til að eiga möguleika á að komast áfram.

Uppfært:
Ragnhildur lék lokahringinn á 82 höggum. Hún endaði samtals á 14 höggum yfir pari á mótinu og kemst ekki áfram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert