Tókst að halda haus nógu lengi

Guðrún Brá Björgvinsdóttir lék mjög vel í dag.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir lék mjög vel í dag. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Guðrún Brá Björgvinsdóttir atvinnukylfingur var að vonum ánægð með árangur dagsins á La Manga á Spáni þar sem hún tryggði sér sæti á lokastigi úrtökumótanna fyrir Evrópumótaröð kvenna.

„Mér tókst að halda haus nógu lengi þrátt fyrir hæga byrjun," sagði Guðrún Brá þegar mbl.is náði tali af henni eftir keppni dagsins þar sem hún lék lokahringinn mjög vel, á 70 höggum, eða þremur höggum undir pari vallarins.

„Aðstæður eru búnar að vera krefjandi, það var mikill vindur annan og fjórða daginn þannig að þá var mjög mikilvægt að vera þolinmóð. Slátturinn kikkaði inn í dag og ég kom mér í betri færi en ég hafði gert fyrstu þrjá dagana," sagði Guðrún sem endaði í 20.-24. sæti af 156 keppendum á mótinu á La Manga þar sem 63 bestu á þessu fjögurra daga móti tryggðu sér keppnisrétt á lokastiginu.

„Tilfinningin að hafa náð þessu skrefi er mjög góð og nú er bara að gíra sig í gang fyrir laugardaginn en þá byrjar alvaran," sagði Guðrún Brá en lokamótið hefst á La Manga á laugardaginn kemur, 17. desember, og lýkur 21. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert