„Bubbi dró nánast úr okkur lífsneistann"

Árni Þór Sigtryggsson og Rúnar Sigtryggsson.
Árni Þór Sigtryggsson og Rúnar Sigtryggsson. Þórir Ó. Tryggvason

„Bubbi dró nánast úr okkur lífsneistann með þeim afleiðingum að við þorðum varla að skjóta á markið síðustu tíu mínúturnar. Þar af leiðandi neyddust menn til þess að ljúka sóknunum einhvernvegin og þá yfirleitt með lélegum skotum. Þar með misstum við af tækifærinu á að vinna," sagði Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Akureyrar og var vonsvikinn með tap sinna manna fyrir Val, 23:19, í N1-deild karla í handknattleik í kvöld.

Bubbi sem Rúnar vísar til er Hlynur Morthens, markvörður Vals, sem átti stórleik og varði alls 25 skot. Hlynur er ævinlega kallaður Bubbi af félögum sínum í handboltanum.

Akureyrarliðið var tveimur mörkum yfir þegar stundarfjórðungur var til leiksloka og skoraði aðeins eitt mark á síðustu tíu mínútunum. „Það var hornamaður sem skoraði eina mark okkar síðustu tíu mínúturnar. Það var okkar eina von að hann myndi skora annað mark," sagði Rúnar sem sannarlega hefði viljað fá eitthvað meira út úr leiknum en raun varð á.

Rúnar sagði að mikið munaði um að Guðmundur Helgason og Jónatan Magnússon gátu ekki leikið vegna veikinda og meiðsla. Þar með hafi dregið úr breiddinni í sóknarleiknum. Um hana hafi verulega munað á lokakaflanum. „Við vissum það fyrir leikinn  að þeir yrðu ekki með.

En eigi að síður þá hefði sigurinn getað fallið okkar megin. Hefði Árni [Sigtryggsson] haldið áfram að skjóta þá hefði ýmislegt getað gerst. Hann var líklegastur til að skora en eftir að Bubbi varði frá honum tvisvar í röð undir lokin þá drapst alveg á Árna, því miður," sagði Rúnar.

„En þrátt fyrir þetta tap þá var þessi leikur að mörgu leyti fín byrjun á mótinu af okkar hálfu. Við verðum bara að hafa í huga á hverju við byggjum hverju sinni og halda áfram að byggja ofan á það. Þegar ég skoða þennan leik eftir tvo daga þá sé ég eflaust margt jákvætt þótt ég sjái fátt annað en svart við hann svo skömmu eftir að flautað hefur verið til leiksloka," sagði Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Akureyrar.

Nánar verður fjallað um viðureign Vals og Akureyrar í íþróttablaði Morgunblaðsins í fyrramálið.

mbl.is

Bloggað um fréttina