Gott að hafa fast land undir fótum næstu tvö ár

Rut Jónsdóttir
Rut Jónsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er afar ánægð með að hafa fast land undir fótum næstu tvö árin. Það er þungu fargi af mér létt núna,“ sagði Rut Arnfjörð Jónsdóttir, landsliðskona í handknattleik, í gær eftir að hún hafði skrifað undir tveggja ára samning við danska úrvalsdeildarliðið Randers HK.

Rut er að ljúka sínu sjötta keppnistímabili með Team Tvis Holstebro (TTH), sem einnig er í dönsku úrvalsdeildinni.

„Ég tel að ég hafi gott af því að breyta til eftir að hafa verið í sex ár hjá sama liðinu og með sama þjálfarann. Ég er að fara frá einu mjög góðu liði yfir í annað,“ sagði Rut sem varð EHF-meistari með TTH fyrir ári auk þess að leika um danska meistaratitilinn.

Randers HK varð danskur meistari fyrir tveimur árum, hafnaði í þriðja sæti í úrvalsdeildinni í vetur og leikur nú í undanúrslitum um danska meistaratitilinn. Félagið varð EHF-meistari árið 2010. Rut gengur til liðs við Randers HK um mitt árið þegar samningur hennar við TTH rennur út en það hefur legið fyrir um nokkurt skeið að hann yrði ekki endurnýjaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert