Ég er í sjöunda himni

Fannar Þór Friðgeirsson
Fannar Þór Friðgeirsson Ljósmynd/grosswallstadt.de

„Ég er ánægður með að forráðamenn ASV Hamm sækja mig vegna þess að núverandi miðjumaður liðsins fer til Sviss í sumar. Þeir höfðu samband við mig að fyrra bragði sem er alltaf jákvætt,“ sagði Fannar Þór Friðgeirsson handknattleiksmaður sem skrifað hefur undir tveggja ára samning við þýska 2. deildarliðið ASV Hamm-Westfalen. 

Hann gengur til liðs við Hamm um mitt þetta ár eftir að hafa lokið núverandi keppnistímabili með Eintracht Hagen. Hamm situr nú í 5. sæti 2. deildar en mikið þarf að ganga á til þess að það fari upp í efstu deild í vor.

„Þetta er eitt af fáum liðum í efrihluta deildarinnar sem eru spennandi. Liðið er í toppbaráttu 2. deildar núna og ætlar sér upp í efstu deild fyrr en síðar,“ sagði Fannar Þór. ASV Hamm var í efstu deild leiktíðina 2010-2011 og lék þá stórskyttan Einar Hólmgeirsson með liðinu.

„Umgjörðin hjá liðinu er mjög góð og ég hlakka til að takast á við nýjar aðstæður,“ segir Fannar Þór sem er 28 ára gamall og á að baki 11 landsleiki.

Fannar Þór er nú á sínu sjötta keppnistímabili í Þýskalandi en auk Hagen hefur hann leikið með Emsdetten, Wetzlar og Grosswallstadt.

„Ég tók samningnum við Hagen í sumar eftir að Grosswallstadt fór á hliðina og niður í 3. deild. Ætlunin var að komast að hjá stærra liði og það hefur nú tekist. Þar af leiðandi er ég í sjöunda himni að komast í toppbaráttuna í deildinni hjá góðu félagi,“ sagði Fannar Þór.