U20 ára landsliðið fer ekki á HM

Það var skiljanlega dauft yfir leikmönnum íslenska landsliðsins eftir tapið …
Það var skiljanlega dauft yfir leikmönnum íslenska landsliðsins eftir tapið fyrir Austurríki í dag. HM draumurinn var úr sögunni. mbl.is/Eggert

Íslenska landsliðinu í handknattleik kvenna, skipað leikmönnum 20 ára og yngri tókst ekki að tryggja sér keppnisrétt á HM í sumar. Íslenska liðið tapaði fyrir landsliði Austurríkis, 25:22, í lokaleik sínum í riðlakeppninni sem fram fór íþróttahúsinu við Strandgötu í dag. Austurríska landsliðið fer á HM ásamt ungverska landsliðinu en landslið Hvíta-Rússlands og Íslands sitja eftir með sárt ennið.

Leikurinn var jafn fram af fyrri hálfleik og yfirleitt munaði aðeins einu marki á liðunum. Þegar kom fram í síðari hluta fyrri hálfleik þá komust þær austurrísku fram úr og voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 15:11.

Austurríska liðið skoraði fyrsta mark síðari hálfleik, 16:11, og það blés ekki byrlega. Elína Jón Þorsteinsdóttir markvörður tók þá til sinna ráða og varði allt hvað af tók. Hún lokaði markinu á löngum kafla en því miður gekk íslenska liðinu afleitlega að fylgja stórleik Elínar Jónu eftir hinum megin vallarins auk þess sem íslenska liðið fékk frábæran stuðning nokkuð hundruð áhorfenda. Sóknarleikurinn gekk illa, talsvert var um mistök, tvö vítaköst fóru forgörðum auk þess sem markvörður austurríska liðsins, Stefanie Hirsch,  varði líka mjög vel.  Munurinn var tvisvar tvö mörk, 17:15 og 18:16 fyrir austurríska liðið. Nær komst íslenska liðið ekki. Austurríkismenn gengu á lagið og voru fjórum mörkum yfir, 20:16, þegar síðari hálfleikur var hálfnaður.

Minnstur varð munurinn tvö mörk, 22:20, þegar sex mínútur voru til leiksloka og fjögur mörk skömmu síðar. Íslenska liðið gerði sitt síðasta áhlaup undir lokin og náði að minnka muninn í tvö mörk, 24:22, þegar tvær mínútur voru eftir. Í þeirri stöðu fékk íslenska liðið sókn sem rann út í súginn. Þrátt fyrir heiðarlegar tilraunir á síðustu mínútunni þá tókst íslenska liðinu ekki að jafna metin. Austurríska liðið innsiglaði sigurinn hálfri mínútu fyrir leikslok eftir að hafa verið afar vafasamt vítakast.

Mörk Íslands: Ragnheiður Júlíusdóttir 7/2, Brynhildur B. Kjartansdóttir 4, Díana Dögg Magnúsdóttir 3, Hulda Dagsdóttir 3, Thea Imani Sturludóttir 3, Birta Fönn Sveinsdóttir 1, Sólveig Kristjánsdóttir 1. 
Varin skot: Elína Jóna Þorsteinsdóttir 25/1.

Brynhildur Bergmann Kjartansdóttir, reynir markskot í leiknum við Austurríki í …
Brynhildur Bergmann Kjartansdóttir, reynir markskot í leiknum við Austurríki í dag. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert