Enn einn útisigurinn

Valsmaðurinn Anton Rúnarsson sækir að Einari Rafni Eiðssyni, liðsmanni FH, …
Valsmaðurinn Anton Rúnarsson sækir að Einari Rafni Eiðssyni, liðsmanni FH, í leiknum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

FH-ingar knúðu fram oddaleik um Íslandsmeistaratitil karla í handknattleik í kvöld. Valur og FH mættust fjórða sinn í úrslitum Íslandsmóts karla í Valshöllinni og hafði FH betur, 30:25. Staðan í rimmu liðanna er því 2:2 og hafa allir leikirnir unnist á útivöllum en vinna þarf þrjá leiki til að verða meistari. 

Valur hefði því með sigri orðið meistari en engin verðlaunaafhending verður á Hlíðarenda í kvöld. Oddaleikurinn fer fram í Kaplakrika á sunnudaginn klukkan 16. FH á heimaleikjaréttinn vegna þess að liðið hafnaði ofar í deildakeppninni í vetur.

1.600 áhorfendur voru mættir á Hlíðarenda í kvöld og margir þeirra í þeim tilgangi að sjá Valsmenn verða meistara í fyrsta skipti í áratug. FH-ingar voru hins vegar mun betur stilltir inn á verkefnið og tóku strax frumkvæðið. FH náði fljótt fjögurra marka forskoti og jók muninn fyrir hlé. Að loknum fyrri hálfleik var staðan 19:12 fyrir FH. 

Valsmenn hafa spilað mjög góða vörn í mörgum mikilvægum leikjum í vetur en sú var ekki raunin í fyrri hálfleik í kvöld enda sést það best á því að liðið fékk á sig 19 mörk sem gerist ekki á hverjum degi. Gísli Kristjánsson lék við hvern sinn fingur í fyrri hálfleik og skoraði þá 6 mörk en hann kann vel við sig á Hlíðarenda og gerði hér 9 mörk í öðrum leik liðanna á dögunum. Gísli var áræðinn og tók í raun af skarið þótt ungur sé og hafði skorað þrjú mörk á upphafsmínútunum. Gísli verður 18 ára gamall í sumar og erfitt er að útskýra hversu óvenjulegt það er að leikmaður undir 18 ára aldri, geti sýnt frammistöðu á borð við þá sem hann hefur sýnt í úrslitaleikjunum, þegar svo mikið er í húfi. Sjöunda markið kom í upphafi síðari hálfleiks en þá loks náðu Valsmenn betri tökum á honum og alls gerði hann 8 mörk í kvöld. 

Vörn FH með Ísak Rafnsson og Jóhann Karl Reynisson fyrir miðju var miklu betri í fyrri hálfleik og sóknir Valsmanna urðu þá á köflum vandræðalegar. Ágúst Elí Björgvinsson varði ágætlega fyrir aftan FH-vörnina en markverðir Vals vörðu einungis 4 skot í fyrri hálfleik. 

Þegar tæplega korter var liðið höfðu Valsmenn tekið nokkuð vel við sér. Sigurður Ingiberg Ólafsson varði þá vel í markinu og vörnin var mun betri. Valur minnkaði muninn niður í þrjú mörk 24:21 og á þeim tímapunkti virtist leikurinn vera að snúast. Valsmenn voru hins vegar ekki nógu klókir til að nýta sóknarfærið sem þar skapaðist. Ólafur Ægir Ólafsson lét til dæmis reka sig út af í stöðunni 24:21 fyrir að hreyta einhverju í Gísla sem lá í gólfinu eftir að Ólafur stöðvaði hann. Eða fyrir að fagna yfir honum en það skiptir ekki öllu máli. Fleiri dæmi um skort á aga sáust hjá Valsmönnum í kvöld og Orri Freyr Gíslason náði sér til dæmis í brottvísun í fyrri hálfleik fyrir að mótmæla vítakastdómi. Þá gaf Atli Már Báruson sendingu aftur fyrir bak sem fór aftur fyrir endamörk í stöðunni 24:21. Ef menn eru ekki einbeittari en þessi dæmi benda til þá eru líkurnar á því að menn verði Íslandsmeistarar afskaplega litlar. Valsmenn munu vafalítið laga slík atriði fyrir úrslitaleikinn. 

Birkir Fannar Bragason kom inn á í mark FH á síðasta korterinu og hann innsiglaði sigurinn með nokkrum góðum markvörslum. FH-ingar slitu sig frá Valsmönnum á ný og lönduðu sigrinum á lokamínútunum án þess að spenna kraumaði undir. 

Gísli var markahæstur hjá FH með sín 8 mörk og Einar Rafn Eiðsson náði sér vel á strik og skoraði 7 mörk. Hann er ekki alltaf öfundsverður að fá Alexander Júlíusson á móti sér en tókst vel upp í kvöld. Ásbjörn Friðriksson gerði 6/2 mörk og markverðir FH vörðu 12 skot. 

Josip Juric skoraði 6/3 mörk fyrir Val og Sveinn Aron Sveinsson var með 5 mörk. Þá gerði Ólafur Ægir Ólafsson 4 mörk. Markverðir Vals vörðu samtals 11/1 skot. 

Josip Juric Grgic sækir að Ágústi Birgissyni FH-ingi.
Josip Juric Grgic sækir að Ágústi Birgissyni FH-ingi. mbl.is/Kristinn Magnússon
Valur 25:30 FH opna loka
60. mín. FH tapar boltanum
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert