Verðum að vinna rest

Ernir Hrafn Arnarson var svekktur í dag.
Ernir Hrafn Arnarson var svekktur í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þeir mættu okkur framarlega, sérstaklega í fyrri hálfleik, og við leystum það ekki nógu vel,“ sagði Ernir Hrafn Arnarson, leikmaður Aftureldingar, eftir svekkjandi 29:27-tap gegn Gróttu í 18. umferð Olísdeildar karla í handknattleik.

„Við erum með marga tapaða bolta og náum ekki að láta boltann fljóta. Við eigum séns í áhlaupi hérna í lokin en það er því miður ekki nóg. Við þurfum fyrst og fremst að leysa það hvernig við byrjum þennan leik, finnst mér. Þegar þeir eru að hlaupa út úr vörninni, þá eigum við að vera klárir og nýta það.“

Grótta var með yfirhöndina nær allan leikinn, munurinn var mest fimm mörk og voru heimamenn duglegir að kasta frá sér boltanum. Ernir var sammála því að Mosfellsbæingar voru á tímum sjálfum sér verstir í dag.

„Jú, algjörlega. Þetta voru ekkert svakalega þvingaðir tapaðir boltar, ef maður getur sagt það. Við vorum oft í ágætum stöðum og köstum honum bara í burtu. Svo eru varnaratriði hérna seinasta korterið þar sem við eigum að ná einum eða tveimur boltum.“

Nokkuð umdeilt atvik átti sér stað áður en flautað var til hálfleiks en þá virtust dómararnir gefa Gróttu vítakast eftir að hálfleiksflautið gall. Heimamenn ærðust yfir þessum dómi og fékk varamannabekkur þeirra tveggja mínútna brottvísun fyrir munnsöfnuð og manni fleiri náðu Gróttumenn að skora fimm af fyrstu sex mörkum síðari hálfleiks. Létu heimamenn mótlætið fara með sig í dag?

„Það held ég ekki, þeir bara nýttu yfirtöluna sína. Eftir það erum við komnir í erfiða stöðu, náum að gera smá áhlaup í lokin en það var ekki nóg.“

Afturelding tapaði illa fyrir Haukum í síðustu umferð en Ernir segir þau úrslit ekki hafa haft nein úrslitaáhrif hér í dag.

„Ég var ekki að hugsa um það. Við erum í ákveðnum erfiðleikum með að púsla þessu saman en við áttum bara að gera betur.“

Afturelding er sex stigum frá fjórða sætinu, sem gefur heimavallarrétt í úrslitakeppninni, og Ernir telur möguleika liðsins á að ná því vera úr sögunni núna.

„Það held ég að segi sig sjálft, þetta verður mjög erfitt. En við verðum bara að vinna rest og vera bestir af restinni og mæta svo í úrslitakeppnina,“ sagði hann að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert