Frábærir Framarar burstuðu Gróttu

Arnar Birkir Hálfdánsson Framari sækir að marki Gróttu í leiknum ...
Arnar Birkir Hálfdánsson Framari sækir að marki Gróttu í leiknum í kvöld. Gunnar Valdimar Johnsen er honum til varnar fyrir Gróttu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Framarar gerðu sér góða ferð á Seltjarnarnesið í 18. umferð Olísdeildar karla í handknattleik er þeir skelltu Gróttu, 35:26, í Hertz-höllinni í kvöld.

Framarar unnu langþráðan sigur í síðustu umferð, eftir að hafa tapað sjö deildarleikjum í röð þar á undan, og hófu leikinn í kvöld af fádæma krafti. Gestirnir voru tveimur til þremur mörkum yfir lengst af í fyrri hálfleik en á 20. mínútu sneru heimamenn taflinu við, jöfnuðu metin í 10:10 og virtust vera með vindinn í bakið.

Allt kom þó fyrir ekki og voru það Framarar sem gáfu í, skoruðu næstu fjögur mörk á meðan Viktor Gísli Hallgrímsson lokaði markinu um stund og gengu þeir til leikhlés með fimm marka forystu, staðan 17:12.

Framarar voru frábærir í kvöld og héldu áfram að spila vel í síðari hálfleik og var Þorsteinn Gauti Hjálmarsson afar öflugur með með sjö mörk. Sigurinn var afar verðskuldaður og var munurinn mestur 10 mörk.

Framarar fara upp fyrir Gróttu í 9. sætið og eru nú með 12 stig en Grótta situr eftir í 10. sæti með 11 stig.

Grótta 26:35 Fram opna loka
60. mín. Leik lokið Framarar gjörsigra Gróttu með níu marka mun!
mbl.is