Maður sem hugsar svona er á skrítnum stað

Bjarni Fritzson, ÍR.
Bjarni Fritzson, ÍR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nú ertu að biðja mig um að kafa ansi djúpt, en ég get ekki sagt það," sagði Bjarni Fritzson, þjálfari ÍR, aðspurður hvort hann hafi upplifað annan eins handboltaleik og þann sem lið hans og ÍBV buðu upp á í Austurbergi í dag. ÍBV vann leikinn 30:26, en fjögur bein rauð spjöld litu dagsins ljós. ÍR er úr leik, þar sem ÍBV vann einvígið 2:0 og fer í undanúrslit

Gríðarlega mikill hiti var í leiknum, nánast frá fyrstu mínútu. Hvers vegna?

„Þetta er úrslitakeppni í fyrsta lagi og þá takast menn á. Við spilum framliggjandi vörn og við erum að fá fríköst og svona. Við spilum fastan varnarleik en ekki óheiðarlegan. Svo kom þetta ljóta brot sem var á Sveini Andra í fyrri leiknum sem orsakaði að hann gat ekki spilað þennan leik í dag. Elías var svo tekinn út úr leiknum þegar enn eitt ljóta brotið þeirra kom. Þá er þetta eins og að kveikja á dínamíti. Þá springur allt í loft upp og leikurinn fer í tóma þvælu í nokkrar mínútur og það er glatað og ekki handboltinn sem við viljum spila."

Menn láta ekki vaða yfir sig

„Menn svara fyrir sig því þeir láta ekki vaða yfir sig og það er það sem gerðist. Ég er ekki hlynntur þessum rauðu spjöldum og ég sem þjálfari myndi aldrei vilja spila svona leik. Handbolti er allt öðruvísi. Það hefur aldrei neitt svona sést áður hjá mér. Menn misstu hausinn og líka í sókninni og ég er svekktur að hafa ekki nýtt tækifærin sem gáfust eftir þessa vitleysu því þá náðum við meiri orku í okkur og það munaði litlu að við kæmumst aftur inn í leikinn. Við vorum klaufar, en ég er stoltur af strákunum mínum eftir ýmiss áföll í þessum leik. Við náðum að klára hann ágætlega."

Sveinn Andri Sveinsson var ekki með ÍR í dag vegna meiðsla sem hann varð fyrir í fyrsta leiknum. Sturla Ásgeirsson fékk svo beint rautt spjald snemma leiks. 

„Við náðum ekki að jafna okkur á brotthvarfi þeirra og það var rosalega dýrt að missa Svein Andra úr liðinu. Hann var okkar besti leikmaður í síðasta leik og svo er hann svakalegur varnarmaður líka."

Arnar Pétursson, þjálfari ÍBV, var mjög ósáttur við Bjarna eftir leik og sagði hann hafa lagt leikinn upp á þann veg að hans leikmenn yrðu grófir og því hafi mönnum verið svo heitt í hamsi. Bjarni var vægast sagt ósáttur við þau ummæli Arnars. 

„Ég held við séum með eina brottvísun í fyrri hálfleik, svo leikurinn var ekki grófur þá. Ef þetta hefði verið uppleggið mitt hefði leikurinn byrjað örlítið öðruvísi. Þetta gerist ekkert fyrr en þeir fá rauða spjaldið sitt. Menn með greindarvísitölu að minnsta kosti við meðaltalið fatta að það brot hafi kveikt í mínum mönnum. Það er ekki það sem við vildum sjá. Það hefur ekki við nein rök að styðjast sem hann sagði. Hann slasar þrjá leikmenn hjá mér og mér sýnist allir leikmenn ganga heilir frá honum. Maður sem hugsar svona hlýtur að vera á einhverjum skrítnum stað. 

mbl.is