Ætla að kveðja ÍBV með Íslandsmeistaratitli

Agnar Smári Jónnsson stjórnar sigursöng Eyjamanna.
Agnar Smári Jónnsson stjórnar sigursöng Eyjamanna. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Agnar Smári Jónsson, leikmaður ÍBV, spilar hugsanlega sinn síðasta heimaleik með Eyjamönnum í kvöld þegar þeir taka á móti FH í þriðja úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í úrvalsdeild karla í handknattleik.

Agnar Smári yfirgefur ÍBV eftir leiktíðina. Hann staðfesti í samtali við mbl.is í dag að hann sé búinn að semja við sitt gamla félag, Val, til tveggja ára og með möguleika á framlengingu um eitt ár en Morgunblaðið greindi frá því á dögunum að hann væri á leið til Vals.

Agnar Smári hafði nýlokið við að snæða hádegisverðinn ásamt liðsfélögum sínum þegar mbl.is náði tali af honum en staðan í einvígi ÍBV og FH er 1:1.

„Við erum hörku vel stemmdir fyrir leiknum í kvöld. Við höfðum engan tíma til að svekkja okkur eftir tapið í Kaplakrika í fyrrakvöld. Nú er bara nýr leikur framundan og við ætlum að vinna hann. Heimavöllurinn hefur verið gríðarlega sterkt vígi og það stendur ekki til að breyta því.

Við vorum ekki sjálfum okkur líkir í Krikanum. Hver og einn var á sínu tempói og við vorum að pirra okkur á hlutum sem við við höfum ekki vera gera. Þetta var bara alls ekki okkar leikur. Við skuldum okkur sjálfum og stuðningsmönnunum betri frammistöðu og það verður allt lagt í sölurnar í kvöld. Þetta er svolítill lykilleikur í þessu einvígi. Það verður hart tekist á og mikill hiti. Það er enginn vinskapur inni á vellinum en er það utan vallar,“ sagði Agnar Smári við mbl.is.

Agnar Smári segir að allir leikmenn ÍBV séu klárir í slaginn fyrir leikinn í kvöld.

„Það er enginn meiddur í úrslitakeppninni. Menn tjasla sér saman þótt þeir finni fyrir einhverjum meiðslum. Ég hef ekki náð almennilega á strik í síðustu tveimur leikjum en ég ætla mér að klára tímabilið með ÍBV með sóma. Þetta eru mínir síðustu leikir með ÍBV og ætla mér að kveðja liðið með Íslandsmeistaratitli. Leikurinn í Eyjum í kvöld gæti orðið minn síðasti heimaleikur með ÍBV í bili og ég ætla að njóta hans,“

Flautað verður til leiks í Eyjum í kvöld klukkan 18.30 og verður leikurinn í beinni textalýsingu hér á mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert