Ánægður fyrir hönd strákanna

Ólafur Andrés Guðmundsson, Vignir Svavarsson, Björgvin Páll Gústavsson og Guðjón ...
Ólafur Andrés Guðmundsson, Vignir Svavarsson, Björgvin Páll Gústavsson og Guðjón Valur Sigurðsson fyrir leikinn í Laugadalshöll í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Menn mættu og voru tilbúnir í slaginn. Baráttan var fyrir hendi,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik eftir að liðið vann Litháa, 34:31, í Laugardalshöll í kvöld og tryggði sér þar með keppnisrétt á heimsmeistaramótinu sem fram fer í Danmörku og Þýskalandi í janúar.

„Litháar eru illviðráðanlegir í stöðunni maður gegn manni. Fyrir vikið er erfitt að tímasetja vörnina. En á lykilaugnablikum í leiknum þá vorum sterkari. Það skiptir mestu þegar upp er staðið,“ sagði Guðjón Valur sem átti stórleik að þessu sinni, skoraði 10 mörk í 12 skotum og hefur þar með skorað 1.822 mörk fyrir landsliðið í 348 landsleikjum. Hann segir að ekki þurfi að fjölyrða um hversu mikilvægt það sér fyrir íslenska landsliðið að komast inn á heimsmeistaramót.

„Þetta er það sem við stefnum alltaf að. Vera með á öllum stórmótum. Enn einu sinni erum við á leið á heimsmeistaramót sem er bara gaman. Ég er fyrst og fremst ánægður fyrir hönd strákanna að þessi áfangi hafi náðst í kvöld,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik í samtali við mbl.is í Laugardalshöll í kvöld.

mbl.is