Sætti mig við að byrja svona

Elvar Ásgeirsson, leikmaður Aftureldingar sækir að Birgi Steini Jónssyni og ...
Elvar Ásgeirsson, leikmaður Aftureldingar sækir að Birgi Steini Jónssyni og Aroni Degi Pálssyni, Stjörnumönnum í leiknum í TM-höllinni í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var fínt lengst af. Ég datt aðeins niður undir lokin og með það er ég ekki nógu ánægður,“ sagði Arnór Freyr Stefánsson, markvörður Aftureldingar, eftir sigur liðsins á Stjörnunni, 27:22, í fyrstu umferð Olís-deildarinnar í handknattleik í TM-höllinni í Garðabæ í kvöld.

Arnór Freyr flutti heim í sumar eftir tveggja ára veru við nám og handknattleiksiðkun í Randers í Danmörku. Óhætt er að segja að hann hafi stimplað sig hressilega inn í deildakeppnina með því að verja 20 skot í leiknum í kvöld, nær öll á fyrstu 45 mínútum leiksins.

„Ég sætti mig alveg við að byrja svona,“ sagði Arnór Freyr glaður í bragði. „Fyrst og fremst skipti máli að við unnum leikinn og fengum stigin tvö sem voru í boði í leiknum. Við verðum bara að halda áfram og vinna eftir okkar markmiðum áfram. Þetta var bara fyrsti leikur af mörgum í deildinni,“ sagði Arnór Freyr Stefánsson, markvörður Aftureldingar°, sem mætir sínu gamla liði, ÍR, í næstu umferð eftir rúma viku í Mosfellsbæ. 

mbl.is