Sætur sigur KA í grannaslagnum

Hart barist í Akureyrarslagnum í kvöld.
Hart barist í Akureyrarslagnum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason.

KA og Akureyri áttust við í KA-heimilinu í kvöld í fyrsta leik liðanna í Olís-deild karla. Bæði lið eru nýliðar í deildinni og er búist við að þau verði í botnbaráttu í allan vetur. Hvert stig er því mikilvægt en í kvöld var barist um meira en stigin tvö sem voru í boði. Boðið var upp á mikinn baráttu- og spennuleik þar sem eitt mark skildi í lokin en lokakafli leiksins var hádramatískur. KA vann 28:27 og náði í fyrstu stigin sín.

Leikurinn var jafn á upphafsmínútunum en KA seig svo fram úr. Um miðjan fyrri hálfleik náðu þeir gulklæddu fimm marka forskoti sem þeir héldu fram að hálfleik. Staðan var 16:11 í hléinu.

KA-menn urðu fyrir miklum skakkaföllum í fyrri hálfleik en bæði Sigþór Árni Heimisson og Heimir Örn Árnason slösuðu sig eftir viðskipti við varnarmúr Akureyringa. Úkraínumaðurinn Leonid Mykhailiutenko fékk rauða spjaldið eftir brotið á Heimi Erni en það var ansi harkalegt, ekki síst ef tekið er mið að því að Heimir Örn er hálfgert gamalmenni.

Langbesti maður fyrri hálfleiksins var Arnar Þór Fylkisson í marki Akureyrar. Hann var kominn með ellefu varin skot strax í hálfleik.

KA leiddi fram í miðjan seinni hálfleik með 3-6 mörkum og virtist hafa öll tromp á hendi. Í stöðunni 23:17 tóku Akureyringar leikhlé og eftir það fóru þeir að saxa hressilega á forskot KA. Þeir náðu að jafna og komust svo yfir í fyrsta skipti þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum, 25:24. KA-menn voru hálfvankaðir en héngu þó í Akureyringum fram á lokamínútuna.

KA jafnaði leikinn í 27:27 og Brynjar Hólm Grétarsson skoraði svo fyrir Akureyri en það mark var dæmt af. KA skoraði úr lokasókn sinni og komst þar með yfir á ný. Akureyringar fengu góðan tíma í lokasókn sinni en skot þeirra höfnuðu í varnarmúr KA og fögnuðu því þeir gulklæddu þegar lokaflautið gall.

KA 28:27 Akureyri opna loka
60. mín. Leik lokið KA vinnur dísætan en tæpan sigur.
mbl.is