Vorum hættulegir í öllum stöðum

Patrekur Jóhannesson var kátur í dag.
Patrekur Jóhannesson var kátur í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„ÍR-ingar voru flatir á okkur og við vorum ekki líkir sjálfum okkur í sókninni í byrjun. Það vantaði tempó eins og þegar við erum upp á okkar besta og svo fengum við hraðaupphlaup á okkur,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss, eftir 30:24-sigur sinna manna á ÍR í kvöld. ÍR-ingar byrjuðu betur en eftir því sem leið á leikinn náði Selfoss völdum á leiknum. 

„Vörnin var góð. Við fengum ellefu mörk á okkur í fyrri hálfleik og helmingurinn af því var hraðaupphlaup. Pawel var svo með 30% markvörslu eftir hálfleikinn. Við vildum þetta mjög mikið.“ Haukur Þrastarson fékk rautt spjald um miðjan seinni hálfleik og var Patrekur ekki viss með þann dóm. 

„Við lendum í áfalli þegar Haukur fær rautt, þá stíga aðrir upp og það er ég ánægður með. Við vorum hættulegir í öllum stöðum. Ég vona að það sé allt í lagi með Bergvin og allt það en Elvar fékk einn á lúðurinn líka og það eru tvær mínútur. Það er erfitt að segja strax eftir leik.“

Í heild var þjálfarinn sáttur við sína menn. 

„Við vorum flottir í öllum stöðum. Við skorum 30 mörk á móti flottum ÍR-ingum. Stephen Nielsen er frábær í markinu og Bjöggi er flottur, það er mikil vinnsla í þessum gæjum. Fyrsti leikurinn er alltaf stress svo ég er mjög ánægður að fá tvö stig,“ sagði Patrekur. 

mbl.is