Afturelding vann í háspennuleik

Úr viðureign Aftureldingar og ÍR í Mosfellsbæ í kvöld.
Úr viðureign Aftureldingar og ÍR í Mosfellsbæ í kvöld. mbl.is/Hari

Afturelding vann ÍR, 28:27, í miklum spennuleik að Varmá í kvöld í annarri umferð Olís-deildar karla í handknattleik. Vart mátti á milli sjá liðanna að þessu sinni en lukkan var með Mosfellingum í lokin eftir að nánast var jafnt á öllum tölum í síðari hálfleik. ÍR var marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 14:13.

Afturelding hefur þar með fjögur stig eftir tvo fyrstu leikina eins og KA og Selfoss en ÍR hefur ekkert stig.

ÍR-liðið byrjaði leikinn betur og hafði frumkvæðið fyrsta stundarfjórðunginn. Baráttan var fyrir hendi í leikmönnum liðsins sem lokuðu vel í vörninni auk þess sem Stephen Nielsen var vel með á nótunum í markinu og Bergvin Þór Gíslason var allt í öllu í sóknarleiknum. Þegar frá leið batnaði varnarleikur Aftureldingar en ekki hvað síst sóknarleikurinn. Tumi Steinn Rúnarsson mætti til leiks og kom góðu floti á sóknarleik Aftureldingar auk þess að vera óhræddur að skjóta sjálfur. Hann og Birki Benediktsson voru allt í öllu í sóknarleik Aftureldingar um skeið. Liðið komst yfir, 10:9 og 12:10. ÍR-ingar lögðu síður en svo árar í bát. Þeir bættu varnarleik sinn og Stephen vaknaði til lífsins á ný í markinu eftir að hafa misst dampinn um skeið.  Aftureldingarliðið varð fyrir áfalli þegar Tumi Steinn fékk rautt spjald fyrir brot á Pétri Árna Haukssyni. Við það datt sóknarleikurinn niður og meðan Mosfellingar voru manni færri komust ÍR-ingar yfir á nýjan leik m.a. tveimur mörkum Stephens í marki ÍR.

ÍR var marki yfir að loknum fyrri hálfleik, 14:13.

Síðari hálfleikur var hnífjafn og æsilega spennandi. Vart mátti á milli liðanna sjá. Afturelding náði í fyrsta sinn í síðari hálfleik tveggja marka forskoti þegar fimm mínútur voru eftir, 27:25. ÍR-ingar jöfnuðu metin. Sigurmarkið var skorað þegar rúm mínúta var eftir. Það skoraði Júlíus Þórir Stefánsson eftir hraðaupphlaup. Gunnar Kristinn Þórsson náði að „stela“ boltanum af ÍR-ingum og geysast fram í sókn sem lauk með skoti hans sem Stephen varði í marki ÍR. Júlíus Þórir var vel með á nótunum og náði frákastinu og skoraði. Bæði lið fengu tækifæri til að skora á síðustu mínútu leiksins en allt kom fyrir ekki. M.a. varði Stephen vítakast Árna Braga Eyjólfssonar þegar 20 sekúndur voru eftir. ÍR-ingar áttu síðustu sókn leiksins en tókst ekki að færa sér hana í nyt.

Afturelding 28:27 ÍR opna loka
60. mín. Stephen Nielsen (ÍR) varði skot - frá Einari Inga af línunni, vítakast dæmt.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert