Svíar misstu sigurinn frá sér

Hin sænska Jenny Alm sækir að Camille Ayglon Saurina í …
Hin sænska Jenny Alm sækir að Camille Ayglon Saurina í leiknum í dag. AFP

Sænska kvennalandsliðið í handknattleik missteig sig í 21:21-jafntefli gegn gestgjöfum Frakka á Evrópumeistaramótinu rétt í þessu en þær sænsku voru með 3-4 marka forystu nær allan síðari hálfleikinn. Ungverjaland vann svo 26:25-sigur á Þjóðverjum með sigurmarki undir lok leiks.

Isabelle Gullden var markahæst í sænska liðinu með sex mörk en Svíar voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 14:11. Þeim tókst svo áfram að halda gestgjöfunum í skefjum eftir hlé og voru mest fjórum mörkum yfir, 17:13, en á lokamínútunum tókst Frökkum að vinna niður muninn. Orlane Kanor jafnaði svo metin þegar tvær mínútur voru til leiksloka og var ekki meira skorað eftir það.

Frakkar eru því áfram á toppi fyrsta riðilsins nú með fimm stig en þeir hafa spilað fjóra leiki. Næstir eru Rússar með fjögur stig en þeir hafa leiki tveimur leikjum minna og mæta Serbum síðar í kvöld. Svíar eru með þrjú stig eftir einn sigur og eitt jafntefli í fjórum leikjum.

Ungverjar unnu Þjóðverja með marki í lokin

Ungverjaland vann Þýskaland 26:25-í dramatískum leik en Noemi Hafra skoraði sigurmarkið níu sekúndum fyrir leikslok eftir hnífjafnar og spennandi lokamínútur. Ungverjar voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 13:10, en þær þýsku voru aldrei langt undan og skiptust liðin á forystunni síðustu tíu mínútur leiksins. Alicia Stolle var markahæst allra með níu mörk fyrir Þjóðverja en Viktoria Lukacs skoraði sjö fyrir Ungverja.

Það ríkir mikil spenna í öðrum riðli þar sem Rúmenía, Holland, Þýskaland og Ungverjaland eru öll með fjögur stig en Rúmenar og Hollendingar eiga leik inni og mætast síðar í kvöld. Tvö efstu lið beggja riðla fara áfram í undanúrslit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert