„Fannar kláraði dæmið fyrir þá“

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar.
Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, varnarleik liðsins ekki hafa verið nægilega góðan til að leggja ÍBV að velli í Mýrinni í Olís-deild karla í dag en Eyjamenn höfðu betur 28:27.

„Aftari línan í vörninni hjá okkur, þessir þrír í miðjunni, töpuðu allt of mörgum návígum í dag. Í fyrri hálfleik tókst okkur ekki að forvinna Kára Kristján á línunni. Það gerðist ekki fyrr en í lok fyrri hálfleik að við fórum að vinna í kringum hann og þá riðlaðist sóknarleikur ÍBV um tíma. Í seinni hálfleik fannst mér Fannar Friðgeirsson í raun klára dæmið fyrir þá. Þeim megin í vörninni vorum við ekki líklegir til að stöðva Eyjamennina,“ sagði Rúnar en lið hans spilaði 5-1 vörn. Hann gat ekki teflt fram sínum sterkasta varnarmanni, Bjarka Má Gunnarssyni, vegna meiðsla. 

„Jú jú það skiptir máli en Egill er hörku varnarmaður og Hjálmtýr getur hjálpað til. Aron Dagur náði ekki að skila sínu hlutverki í vörninni og þetta varð of auðvelt fyrir ÍBV. Við höfðum undirbúið okkur undir það hvernig er best að loka á Fannar en við vorum ekki nálægt því þegar á hólminn var komið.“

Rúnar segir Stjörnuna stefna á að komast í úrslitakeppnina. Hann segir lykilatriði að leikmenn nái heilsu til að komast á skrið þegar deildin fer aftur af stað eftir langt HM-frí. Léo Snær er einnig meiddur og Ari meiddist í leiknum og fór út af. 

„Við þurfum að komast í úrslitakeppnina. Það er númer eitt, tvo og þrjú. Okkar menn þurfa að ná heilsu og það er aðalmarkmiðið í pásunni. Við þurfum að fá Bjarka aftur inn auk þess sem við erum nánast án örvhentra manna í augnablikinu. Þá getum við náð vopnum okkar og spilað almennilega úr okkar styrkleikum. En þótt leikmenn vanti þá fannst mér samt að við hefðum getað sýnt meiri karakter í dag,“ sagði Rúnar Sigtryggsson í samtali við mbl.is. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert