Kiepulski tryggði Selfossi bæði stigin

Haukur Þrastarson að skora fyrir Selfyssinga í kvöld.
Haukur Þrastarson að skora fyrir Selfyssinga í kvöld. mbl.is/Hari

Selfoss vann Aftureldingu í háspennuleik, 29:28, að Varmá í kvöld í Olís-deild karla í handknattleik og komast þar með upp að hlið FH í þriðja til fjórða sæti deildarinnar með 20 stig eftir 14 leiki. Haukur Þrastarson skoraði sigurmark Selfoss hálfri mínútu fyrir leikslok. Pólverjinn Pawel Kiepulski innsiglaði sigurinn er hann varði skot frá Birki Benediktssyni Mosfellingi á síðustu sekúndu leiksins.

Selfoss-liðið var sterkara lengst af leiksins og hafði m.a. fjögurra marka forskot í hálfleik, 16:12, og var oft með sex marka forystu. Mosfellingar sýndu hins vegar þrautseigju og náðu að jafna leikinn undir lokin. Lengra komust þeir ekki. Afturelding er í fimmta sæti deildarinnar með 15 stig, fimm stigum á eftir Selfossi og FH sem eru í næstu sætum fyrir ofan.

Eftir jafnar upphafsmínútur tóku leikmenn Selfoss öll völd á leikvellinum rétt fyrir miðjan hálfleikinn. Framliggjandi 3/3 vörn liðsins olli Mosfellingum mestu vandræðum. Þeir töpuðu boltanum hvað eftir annað og Selfoss-liðið tók hvert hraðaupphlaupið á fætur öðru. Á sjö mínútna kafla breyttist staðan úr 7:7 í 13:7, Selfossi í vil. Munurinn hefði hæglega getað verið meiri ef öll hraðaupphlaup Selfoss-liðsins hefðu heppnast en liðið keyrði miskunnarlaust hraðaupphlaup og seinni bylgjuna á leikmenn Aftureldingar sem vissu um skeið ekki hvaðan á þá stóð veðrið.

Aftureldingarliðið klóraði aðeins í bakkann á síðustu tveimur mínútum hálfleiksins og munurinn var þar með aðeins fjögur mörk að fyrri hálfleik loknum, 16:12.

Afturelding kom forskoti Selfoss niður í þrjú mörk snemma í síðari hálfleik áður en Selfoss-liðið jók forskot sitt upp í 20:14 með þremur mörkum í röð. Um skeið hélst sex marka forskotið. Mosfellingum tókst að bíta frá sér með því að bæta aukamanni í sóknina og fá leikmenn Selfoss þar með til að bakka úr sinni 3/3 vörn sem hafði reynst Mosfellingum erfið.

Afturelding minnkað muninn í eitt marka, 23:22, og aftur í 24:23, þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Finnur Ingi Stefánsson jafnaði metin, 27:27, þegar þrjár mínútur voru til leiksloka.

Síðustu mínútur leiksins voru spennuþrungnar. Pawel Kiepulski varði vítakast frá Tuma Steini Rúnarssyni þegar hálf önnur mínúta var til leiksloka og möguleiki fyrir Mosfellinga að jafna metin. Birkir Benediktsson jafnaði metin, 28:28, þegar rúm mínúta var til leiksloka. Selfyssingar hófu sókn og Haukur Þrastarson skoraði sigurmarkið þegar hálf mínúta var eftir. Mosfellingar áttu síðustu sóknina en Kiepulski varð skot frá Birki á síðustu sekúndu og kom í veg fyrir jafntefli.

Uppfærist sjálfkrafa meðan leikur er í gangi

Allar lýsingar í beinni

Afturelding 28:29 Selfoss opna loka
60. mín. Leik lokið - Selfoss fer með bæði stigin úr Mosfellsbæ eftir háspennuleik þar sem litlu mátti muna að jafntefli yrði.
mbl.is