Mikilvægt að slíta okkur frá KA/Þór

Guðný Jenný Ásmundsdóttir ver mark ÍBV og er liðinu mikilvæg.
Guðný Jenný Ásmundsdóttir ver mark ÍBV og er liðinu mikilvæg. mbl.is/Hari

Guðný Jenný Ásmundsdóttir, markvörður ÍBV, var virkilega sátt við sigur liðsins á móti Stjörnunni. Hún átti góðan leik í markinu þar sem hún varði fjórtán skot, þar af eitt vítakast.

„Ég er gríðarlega ánægð með frammistöðuna og það var mjög mikilvægt að ná í þessi tvö stig. Mér fannst við ná að vinna leikinn á góðri vörn.“

ÍBV spilaði við Val um daginn en þar gekk mjög illa að skora en það gekk mun betur í dag.

„Við fórum yfir nokkur atriði eftir þann leik og sáum nokkra möguleika, við höfum líka verið í því að reyna að bæta okkur í allan vetur og vonandi erum við að taka skref í rétta átt,“ sagði Guðný Jenný en Stjarnan byrjaði í 3-3 vörn sem hlýtur að hafa komið liði ÍBV aðeins á óvart.

„Ég hafði ekki miklar áhyggjur af því þegar þær voru að mæta okkur í 3-3 vörninni, mér finnst við vera sjóaðar í því að spila á móti svona vörn og upplifði það alla vega þannig.“

Stjarnan hefur spilað virkilega vel í síðustu leikjum, þar má nefna jafntefli við Val og Hauka og tap með einu marki gegn Fram.

„Stjarnan er með hörkugott lið, staða þeirra í töflunni er ekki að endurspegla gæði leikmanna sem eru innanborðs, þær urðu fyrir áfalli í upphafi tímabils þegar þær missa út markmann. Það má aldrei vanmeta þetta lið og maður vissi líka að þegar við vorum komnar með forystu í seinni hálfleik þá gáfust þær ekkert upp. Þetta eru leikmenn sem hafa unnið marga titla og eru vanar að berjast áfram, þetta var aldrei gefið fyrr en leikurinn var búinn.“

ÍBV byrjaði árið mjög illa í deildinni en hefur nú náð að tengja saman tvo góða deildarleiki.

„Það er rosalega mikilvægt að slíta okkur frá KA/Þór, hver leikur í deildinni er úrslitaleikur, við verðum að klára þetta finnst mér og tryggja okkur í úrslitakeppnina. Líka fyrir okkur er best að koma af krafti inn í úrslitakeppnina þegar hún byrjar.“

Var Guðný Jenný eitthvað smeyk undir lokin þegar Stjarnan gat jafnað með sinni síðustu sókn?

„Mér fannst vörnin standa hrikalega vel og ég held að þær hafi ekki séð marga möguleika, alla vega fannst mér ég ekki sjá möguleika hjá þeim. Þetta hefur sýnt sig í vetur að við getum staðið mjög öfluga og góða vörn, þetta eru algjörir snillingar í vörn, þessar stelpur. Við þurfum kannski að bæta okkur aðeins fram á við, en það kemur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert