Hraðinn var mikið meiri

Haukar fagna sigrinum í leikslok.
Haukar fagna sigrinum í leikslok. Ljósmynd/Ómar Óskarsson

„Þetta var góður leikur frá upphafi til enda af okkar hálfu og hreinlega óþarfi af okkar hálfu að hleypa spennu í leikinn undir lokin,“ sagði Tjörvi Þorgeirsson, fyrirliði Hauka, glaður í bragði eftir sigur á ÍBV, 29:26, í oddaleik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins í handknattleik karla í Schenker-höllinni á Ásvöllum í dag.

„Við vissum að Eyjamenn myndu koma með áhlaup strax í byrjun síðari hálfleik. Við svöruðu með sex mörkum í röð. Þá má segja að við höfum tryggt okkur sigurinn,“ sagði Tjörvi um upphafskafla síðari hálfleiks þegar  ÍBV jafnaði metin í eina skiptið í leiknum, 13:13, en Haukar svöruðu með sex mörkum í röð á fimm mínútna kafla.

Tjörvi sagði að vörn Hauka hafi verið mikið betri nú en í fjórða leiknum í Vestmannaeyjum á miðvikudaginn. Um leið hafi liðið náð hraðaupphlaupum og nýtt seinni bylgjuna vel, sem var breyting frá síðasta leik. „Við keyrðum seinni bylgjuna ekki rétt í fjórða leiknum. Við breyttum ekki miklu, kannski  sendum við boltann í réttari átt að þessu sinni. En hraðinn var meiri og betri hjá okkur að þessu sinni, ekki síst í fyrri hálfleik,“ sagði Tjörvi og bætti við að stemningin hafi verið frábær í húsinu og gaman hafi verið að taka þátt í leiknum við þessar aðstæður.

Framundan eru úrslitaleikir við Selfoss. Hugsanlega verður fyrsti leikurinn  á miðvikudaginn en ekki þriðjudaginn eins og áætlanir voru upp um. Ástæðan er söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva en íslenska lagið tekur þátt í undankeppni á þriðjudagskvöld.

„Við erum ekkert að hætta núna. Við ætlum okkur að vinna Selfoss næst,“ sagði Tjörvi Þorgeirsson, fyrirliði Hauka, í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert