Liðið er á réttri leið

Axel Stefánsson, þjálfari íslenska liðsins, var stoltur af leikmönnum sínum …
Axel Stefánsson, þjálfari íslenska liðsins, var stoltur af leikmönnum sínum eftir sigur kvöldsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er ótrúlega stoltur af stelpunum og þetta var mjög vel spilaður leikur af okkar hálfu,“ sagði Axel Stefánssonm þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir 32:31-sigur liðsins gegn Spánverjum í seinni leik liðanna í umspili um laust sæti á HM 2019 sem fram fer í Japan í Laugardalshöll í kvöld. Fyrri leik liðanna í Málaga á Spáni lauk með 35:26-sigri spænska liðsins og Ísland missir því af heimsmeistaramótinu í ár.

„Sóknarleikurinn í kvöld var með því besta sem við höfum spilað og ef við hefðum náð að loka betur á þær í hornunum og markvarslan hefði dottið hjá okkur þá hefði allt getað gerst í þessu einvígi. Við náum tveggja marka forskoti um miðjan seinni hálfleikinn og hefðum getað náð þriggja marka forskoti á ákveðnum tímapunkti í leiknum. Það munaði því ekki miklu að við hefðum getað strítt þeim af alvöru í þessum tveimur leikjum en heilt yfir er ég gríðarlega stoltur af þessum sigri okkar í kvöld því við vorum að vinna mjög öflugan andstæðing.“

Axel segir að sigurinn í kvöld muni gefa íslenska liðinu mikið þegar fram í sækir en Spánn hefur á að skipa einu sterkasta kvennalandsliði heims í dag.

„Fimmtán mínútna kaflinn út í Málaga situr vissulega í okkur og þetta sýnir manni einfaldlega hversu grimmilega manni er oft refsað í þessum alþjóða bolta. Þegar að þú ert ekki að gera hlutina nægilega vel er þér refsað og það er nákvæmlega það sem gerðist í fyrri leiknum. Að sama skapi er þetta eitthvað sem við munum læra af og leikmenn munu taka þetta með sér inn í næstu verkefni. Þessi sigur gefur okkur mikið og sýnir okkur að við getum unnið þessar stærstu þjóðir.“

Þjálfarinn telur að liðið sé á réttri leið og að það sé lítið sem vanti upp á svo liðið komi sér á stórmót eftir sjö ára bið.

„Ef við horfum á úrslitin og spilamennskuna hér í kvöld er ljóst að liðið er á réttri leið. Við þurfum að halda áfram að taka þetta skref fyrir skref. Við þurfum að fá færri mörk á okkur og taka varnarleikinn aðeins í gegn og þá eigum við sem lið að geta tekið næsta skref upp á við,“ sagði Axel í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert